„Við grófsópum fyrst og í seinni umferðinni spúlum við með vatni allar húsagötur og ákveðnar tengibrautir,“ segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, um verklagið sem viðhaft er við hreinsun gatna og stíga, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.
„Fyrir seinni umferðina þegar við þvoum og sópum verður íbúum gert viðvart með bréfi og skiltum og þeir beðnir um að liðka til fyrir hreinsun með því að færa bíla úr götum sem verið er að hreinsa hverju sinni“, er haft eftir Guðjónu Björk.
Fram kemur, að síðustu daga hafi verið grófsópað en gert sé ráð fyrir að hefja götuþvottinn um miðja næstu viku. Um helgina verður byrjað að spúla lóðir við skólana sem þá eru komnir í páskafrí.