„Maður er þrælvanur þessu,“ segir skipstjórinn Guðmundur Gylfason í léttum dúr þegar hann er spurður út í vandræði sem hann lenti í þegar bátur hans fór að leka í mynni Reyðarfjarðar í gær. Betur fór en á horfðist en hann viðurkennir að „þetta er svolítið vesen þegar maður lendir í þessu úti á sjó.“
Guðmundur, sem var einn um borð, var með fullfermi af steinbít og á leið til hafnar þegar hann lenti í vanda, en hann var þá kominn fram hjá Vattarnestanga. Svo virðist sem að dæla hafi gefið sig með þeim afleiðingum að sjór fór að safnast upp í bátnum, Einaro SU-7, sem er sex tonna línu- og handfærabátur.
Spurður nánar út í atvikið segir Guðmundur að sjór hafi komist í vélina en báturinn var orðinn mjög þungur vegna aflans. „Ég missti hann aðeins á hliðina. Svo gat ég reddað því með línunum og kastað þeim til,“ segir Guðmundur.
„Þú færð smá skrekk kannski fyrst en svo kemstu yfir það,“ segir Guðmundur spurður út í sín fyrstu viðbrögð. Menn hafi ekki mikinn tíma til að vera óttaslegnir í svona aðstæðum því allt fari á fullt við að reyna bjarga málunum.
„Ég setti bara of mikið í bátinn. Maður er búinn að gera þetta oft og þetta hefur sloppið hingað til.“
Atvikið átt sér stað um þrjúleytið í gær. Guðmundur óskað í framhaldinu eftir aðstoð og voru sjóflokkar björgunarsveita á Austurlandi kallaðir út á fyrsta forgangi. En líkt og Slysavarnafélagið Landsbjörg greindi frá í gær, var lekinn töluverður og báturinn kominn á hliðina nokkrum mínútum eftir að neyðarkallið barst. Þyrla Landhelgisgæslunnar var janframt kölluð út en aðstoðin var síðar afturkölluð.
„Þeir voru snöggir maður,“ segir Guðmundur um viðbrögð björgunarsveitarmanna. Hann tekur fram að hann hafi náð að bjarga málum þannig að báturinn gat siglt fyrir eigin vélarafli til Eskifjarðar, en björgunarbátur frá Björgunarsveitinni Brimrún fylgdi Guðmundi til hafnar í Eskifjörð. Guðmundur viðurkennir að hann hafi verið feginn að sjá björgunarsveitarmennina.
„Þetta er bara oft þegar menn eru einir þá er erfitt að brasa við þetta; þú þarft að gera svo margt í einu,“ segir Guðmundur sem er þaulreyndur sjómaður, en hann hefur verið til sjós í yfir þrjá áratugi.
Guðmundur segir að svo virðist sem að báturinn hafi sloppið við meirháttar tjón. „Ég veit ekki með túrbínuna en ég held að þetta hafi sloppið,“ segir hann að lokum.