Áhersla á að búa til eitt kerfi

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem ég hef þegar gert í minni tíð sem ráðherra er að ég hef undirritað reglugerð um Íbúðalánasjóði þannig að Íbúðalánasjóður gat byrjað að lána til leigufélaga. Það hefur gengið ágætlega síðan reglugerðin tók gildi og umtalsverðir fjármunir hafa farið til leigufélaga sem eru að hefja framkvæmdir.“

Þetta sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem gerði stöðu mála á leigumarkaði að umtalsefni sínu. Spurði hann ráðherrann að því hvort hann stefndi að því að fylgja áfram eftir hugmyndum um eitt kerfi húsnæðisstuðnings fyrir alla landsmenn, óháð eignaformi og hvort hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir breytingum á skuldaleiðréttingaráformum ríkisstjórnarinnar þannig að þau næðu einnig til veðtryggðrar húsaleigu.

„Ég hef líka lagt áherslu á það í vinnu verkefnisstjórnarinnar að taka þær hugmyndir sem var ekki búið að ljúka vinnu við í tíð fyrri ríkisstjórnar og snúa að húsnæðisbótakerfinu í heild sinni. Þær snerust fyrst og fremst um húsaleigubætur en hugmyndin sem var samþykkt í þeim hópi sem ég sat í um mótun húsnæðisstefnu var sú að leggja áherslu á að búa til eitt kerfi. Það hafa komið fram nýjar hugmyndir um vaxtabætur, hvernig þær ættu frekar að fara inn á höfuðstól lána, í tillögu verðtryggingarnefndar en ekki greiddar út eins og hingað til. Þetta er allt saman verið að vinna og verkefnisstjórnin hefur tilkynnt um að hún mun skila af sér í lok apríl,“ sagði Eygló ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert