Það er lengra í evruna en nokkur ár, að mati Ásgeirs Jónssonar, lektors í hagfræði. Tilefnið er umræða um kafla sem hann ritaði í nýrri úttekt Alþjóðamálastofnunar á aðildarviðræðum Íslands við ESB.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, lagði út af skýrslunni á Alþingi og túlkaði hana svo að þar kæmi fram að Ísland gæti „tekið upp evru mjög fljótt eftir aðild að ESB“. „Aðild að evru er ekki fjarlægur möguleiki eftir mjög langan tíma,“ sagði Árni.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Ásgeir á, að skýrslan hafi aðeins lagt mat á það hversu langan tíma hið formlega upptökuferli evru tæki með þátttöku í svonefndu ERM II-samstarfi, sem ætti ekki að taka meira en 2-3 ár af reynslu annarra ríkja að dæma. Hins vegar þurfi ýmislegt að gerast á undan, allt frá því að hefja samningaviðræður á ný, ljúka samningi og svo kjósa um hann.