Stefnt er að því að frumvarp um náttúrupassa verði lagt fram á Alþingi við upphaf þings næsta haust og að hægt verði að taka hann í notkun í byrjun næsta árs. Þetta kom fram í máli Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar á Grand Hóteli í Reykjavík í dag.
Ráðherrann sagðist telja að vanda þyrfti vel til verka við útfærslu fyrirkomulagsins og að unnið væri hörðum höndum að því í ráðuneyti hennar í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Sagði hún málið þurfa meiri tíma í undirbúningi til þess að ná um þaðmeiri sátt sem hún teldi ekki aðeins mikilvægt heldur nauðsynlegt. Hún teldi þannig ekki rétt að keyra í gegn lagafrumvarp í gegnum þingið í flýti fyrir þinglok á þessu þingi. Til þess væri málið einfaldlega alltof stórt og mikilvægt til lengri tíma litið. Ragnheiður minnti ennfremur í því sambandi á fyrri ummæli sín um að hún vildi ekki fórna afurðinni fyrir tímasetningar.
Hins vegar hefði ríkisstjórnin, samhliða þeirri ákvörðun að fresta framlagningu frumvarpsins, samþykkt að veita sérstökum fjármunum strax í sumar til nauðsynlegra framkvæmda á þeim stöðum sem mest brynni á og væru tilbúnir til framkvæmda. Þegar væri hafin vinna við að kortleggja þörfina í þeim efnum en ekki lægi fyrir um hversu mikla fjármuni yrði að ræða. HIns vegar yrði ekki farið fram á mótframlag í þeim efnum.
Ráðherrann upplýsti ennfremur að hún hefði tekið ákvörðun um að semja við Hagstofu Íslands um gerð ferðaþjónustureikninga til þess að hægt yrði að fá sem nákvæmastar upplýsingar um þróun mála í ferðaþjónustunni.