Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness sem sýknaði Kristján Arason af kröfum Kaupþings hf. á síðasta ári. Hæstiréttur hafnar þeim kröfum að Kristján hefði valdið bankanum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Slitastjórn bankans fór fram á að Kristján greiddi rúman hálfan milljarð króna sem var lán til kaupa á hlutafé í Kaupþingi banka.
Kaupþing hf. höfðaði mál gegn Kristjáni og krafðist meðal annars greiðslu lánssamninga sem aðilar höfðu gert sín á milli vegna kaupa Kristjáns á hlutabréfum í Kaupþingi en á þeim tíma hafði Kristján verið einn af framkvæmdastjórum bankans. Hafði þáverandi forstjóri Kaupþings samþykkt að umrædd hlutabréf yrðu færð yfir í 7 ehf., sem var eignarhaldsfélag á vegum Kristjáns, ásamt þeim skuldum sem stóðu að baki hlutabréfakaupunum.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að þáverandi forstjóri bankans hefði haft rétt til að rita einn firma Kaupþings hf. sbr. 2. mgr. 74. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og að takmörkun á þeim rétti sem fram kom í verklagsreglum bankans hefði einskorðast við að veita framkvæmdastjórum fyrirtækisins lán.
Var áðurnefnd ákvörðun forstjórans því skuldbindandi fyrir bankann og þurfti ekki að taka afstöðu til þess hver hefði verið vitneskja Kristjáns um heimild forstjórans til að skuldbinda bankann á þessum tíma. Ekki var talið skipta máli að hlutafé 7 ehf. hafði ekki verið greitt í peningum við stofnun félagsins.
Þá var hafnað málsástæðum Kaupþings er lutu að því að Kristjáns skyldi bera ábyrgð á skuldbindingum 7 ehf. á grundvelli ólögfestrar undantekningar frá meginreglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga eða ólögfestrar meginreglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun.
Þá var hafnað kröfum Kaupþings sem byggðar voru á því að Kristján hefði valdið banknum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.
Með dómi Hæstaréttar var hafnað kröfu Kristjáns um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.
Kaupþing hf. er gert að greiða Kristjáni 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.