Pútín vildi ekki ræða við Ólaf

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði einu sinni við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, að það að fá að ríða á íslenskum hesti væri nógu góð ástæða til þess að sækja Ísland heim.

Í viðtali við rússneska dagblaðið St. Petursborg Times bendir hann jafnframt á að Pétursborg í Rússlandi sé í raun eins konar höfuðborg norðurslóða.

Í viðtalinu segir Ólafur Ragnar að Íslendingar hafi nú engan áhuga á aðild að Evrópusambandinu. „Meirihluti Íslendinga er mótfallinn því að ganga í Evrópusambandið núna,“ segir hann.

Þar segir forsetinn að í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 hafi sú skoðun skotið rótum að ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu, þá hefði kreppan ekki reynst okkur eins erfið og raun bar vitni.

„Í nokkur ár hljómuðu þessi rök sannfærandi en nú höfum við séð hvernig Spánn, Grikkland, Írland, Eystrasaltsríkin og Frakkland hafa átt í erfiðleikum í glímunni við fjármálakreppuna,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann segir að vegna bæði núverandi stöðu íslenska hagkerfisins og legu landsins séum við í betri stöðu til að standa sjálf í samningaviðræðum við öll önnur ríki.

Málefni norðurslóða hafa verið forsetanum hugleikin undanfarin ár en í viðtalinu segir hann að fyrir tíu árum hafi Vladímir Pútín, forseti Rússlands, ekki viljað ræða um tækifærin þar við Ólaf, augliti til auglitis. Þess í stað hafi hann neyðst til að ræða við rússneska héraðsstjóra um málið.

„Á þessum tíma hef ég tekið eftir breyttum sjónarmiðum í þessum efnum hjá forseta Rússlands. Á undanförnum fimm til sex árum hefur raunar hann og utanríkisráðherrann gert mál sem varða Ísland að forgangsmáli,“ segir forsetinn.

Hann bætir því við að um sé að ræða mjög mikilvæga og þýðingarmikla breytingu. Málefnin séu enn brýn og hann muni áfram ræða þau við héraðsstjórana, en eiga þá jafnframt samtöl við Pútín, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann.

Ólafur Ragnar bendir jafnframt á að Rússland hafi ávallt verið mikilvægur markaður fyrir Ísland. „Við höfum enn áhuga á að flytja út fiskafurðir til Rússlands. Það er einnig stigmagnandi áhugi innan Rússlands á íslensku kjöti og landbúnaðarafurðum úr gróðurhúsum.“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert