Segja ráðuneytið skorta þekkingu á flugi

Svifflugan TF-SAX var kyrrsett í 2 og hálfan mánuð.
Svifflugan TF-SAX var kyrrsett í 2 og hálfan mánuð.

Svifflugfélag Íslands krefur innanríkisráðuneytið um 3 milljóna króna skaðabætur í framhaldi af niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi brotið stjórnsýslulög á félaginu.

Málið snerist um kyrrsetningu svifflugunnar TF-SAX, sem svifflugfélagið taldi tilhæfulausa geðþóttaákvörðun og grófa valdníðslu, að sögn Kristjáns Sveinbjörnssonar formanns félagsins.

Félagið kærði kyrrsetninguna en ráðuneytið vísaði kæruna frá. Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu, í máli nr. 7075, að með þessu hafi ráðuneytið brotið stjórnsýslulög.

Að sögn Kristjáns er umboðsmaður enn með til skoðunar tvö önnur mál á hendur innanríkisráðuneytin, þar sem félagið telur að ráðuneytið hafi tekið ófaglega og hlutdræga úrskurði og með því brotið á félaginu og valdið tjóni.

„Reynsla félagsins er sú að innanríkisráðuneytið skorti verulega þekkingu á flugmálum og reglum um stjórnsýslu,“ segir Kristján. Ráðuneyti fer með málefni flugs í landinu.

Svifflugfélagið telur að framkoma ráðuneytisins kunni að ógna flugöryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert