Síðasta athöfn í byrjun aðventu á Austurvelli, þegar kveikt var á Óslóartré að öllum líkindum í síðasta sinn, er einnig athyglisverð fyrir þær sakir að þar söng ekki Dómkórinn, líkt og hann hafði gert í áratugi af sama tilefni.
Kári Þormar, stjórnandi kórsins, segir þessa ákvörðun borgaryfirvalda hafa komið sér verulega á óvart og vakið undrun margra innan og utan kirkjunnar. Kórinn hafi fengið að vita þetta nokkrum dögum fyrir viðburðinn.
Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, segist hafa tekið þessa ákvörðun og ekki verið undir neinum þrýstingi borgarmeirihlutans. Hann hafi ákveðið að breyta til og skipta um tónlistaratriði. Um tónlistarflutninginn að þessu sinni sáu söngkonurnar Sigríður Thorlacius og Ragnhildur Gísladóttir.