„Við sjáum tækifæri hér í æfinga- og kennsluflugi. Flugskólar gætu átt heima hér,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að til athugunar sé að byggja flugvöllinn á Selfossi upp þannig að hann geti tekið við hluta af þeirri starfsemi sem hverfa mun frá Reykjavíkurflugvelli ef þrengt verður meira að starfseminni þar. Á skipulagi er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja íbúðarhús við flugvöllinn, með flugskýlum í stað bílskúra.
Selfossflugvöllur er í eigu Flugklúbbs Selfoss. Hann er við Ölfusá, sunnan Selfoss. Byggt hefur verið í nágrenni hans og fleiri hverfi á skipulagi. Um tíma var hugmyndin að leggja hann af en Þórir Tryggvason, gjaldkeri flugklúbbsins, segir að tekist hafi að festa hann í skipulagi.