Ballett hefur hér á landi allajafna þótt kvenlæg íþrótt. Að mati fagfólks virðist ástæðan geta verið fordómar en einnig sé umgjörðin fremur kvenlæg. Brynja Scheving, skólastjóri Ballettskóla Eddu Scheving, segist stundum heyra til feðra sem neiti að setja drengi sína í sokkabuxur. „En ég held að viðhorfið sé að breytast, þó að það halli vissulega á drengi,“ segir hún.
Guðmundur Helgason, skólastjóri Listdansskóla Íslands tekur í sama streng. Hann segist ekki geta sagt að skólinn fái mikið af strákum en það komi þó í bylgjum. Ástæðuna telur hann vera að samfélagið ali gjarnan á fordómum. „Ég veit ekki hvort þetta sé einhver hræðsla eða hvað, en það eru fordómar.“
Drengjaleysið í ballett hér á landi á þó yfirleitt ekki við um mörg önnur lönd, enda töluvert meiri ballettmenning þar. „Miklu meira er um að drengir sæki í ballett erlendis. Þar er tekið inntökupróf og valið inn í skólana. Það þykir voða flott að fá inn enda oft erfitt að komast að,“ segir Brynja.
„Því miður er ekki mikið um drengi í ballett. Það er yfirleitt talað um ballett á Íslandi sem listgrein fyrir stúlkur og ballettinn hefur ekki almennilega náð athygli strákanna, sem er svolítið skrítið því það eru svo margir strákar í samkvæmisdansi,“ segir Ásta Björnsdóttir, skólastjóri Balletskóla Sigríðar Ármann. „Ballett er mjög krefjandi íþrótt og þeir þurfa að vera mjög sterkir, með góðan stökkkraft og vel á sig komnir líkamlega.“ Ásta hefur kennt strákum í knattspyrnuflokkum. Þar kynntust þeir teygjum og uppbyggjandi fótaæfingum sem þeir höfðu bæði gagn og gaman af.
„Líklega þarf að laga ballettumhverfið betur að strákunum. Það þarf kannski að matreiða þetta öðruvísi og hafa ballettinn uppsettan á þann hátt sem höfðar betur til þeirra. En vonandi á þetta eftir að breytast. Ég hugsa að það þyrfti ekki nema bara eitthvert trend – að þetta kæmist í tísku og þætti svolítið svalt,“ segir Ásta.
Guðmundur segir það lengi hafa verið draum hjá sér að koma á fót sérstöku kynningarnámskeiði fyrir drengi. Það velti þó mikið á peningum og tíma. „Þar til af því getur orðið eru strákar samt velkomnir í almennt nám við skólann,“ segir hann.
Ítarlegri umfjöllun birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.