Páskahretið verður á sínum stað

Það viðraði ekki vel á þessar skólastúlkur í morgun þegar …
Það viðraði ekki vel á þessar skólastúlkur í morgun þegar ljósmyndari mbl.is hitti þær á förnum vegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að páskahretið verði ekki á sínum stað í ár. Spáin er vægast sagt óspennandi næstu daga, þó verður heldur hlýrra fyrir sunnan en norðan. Færð gæti spillst á Norðurlandi síðar í dag en veðrið verður slæmt þar þegar líða tekur á daginn.

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að austan hvassviðri sé nú á landinu með rigningu fyrir sunnan en slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Það dregur úr vindum á Suður- og Vesturlandi upp úr hádegi en það heldur áfram að rigna og dregur ekki úr úrkomunni fyrr en seint í kvöld.

 Á morgun verður búið að snúast í heldur hægari norðanátt eða 8-15 metra á sekúndu. Núna er 13-20 metrar á sekúndu á landinu. Með norðanáttinni fylgir úrkoma og mega höfuðborgarbúar eiga von á éljum síðdegis á morgun. Að sögn Helgu mun snjór ekki setjast enda hiti fyrir ofan frostmark. „Þetta verða slydduél,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Fljótlega eftir hádegi fer éljagangurinn á Hellisheiði að breytast í rigningu en fyrir norðan mun snjóa í dag og væntanlega skafrenningur á einhverjum stöðum.

Að sögn Helgu er ágætis spá fyrir sunnudag en á mánudag kemur næsta lægð yfir landið. Það verður þó ágætt að skella sér á skíði fyrrihlutann á mánudag á Akureyri þar sem það snýst í suðvestanátt. Síðdegis á mánudag fer hins vegar að rigna og jafnvel snjóa. 

Næstu viku, fram á skírdag er spáð suðvestlægum áttum með rigningu, skúrum og éljum sunnan og vestanlands. Úrkomuminna fyrir norðan en þar verður mun kaldara en fyrir sunnan þar sem hiti getur farið upp í 5-7 stig.

Á skírdag er lægð að koman suðvestan úr hafi og hún byrjar með sunnanátt en síðan lítur út fyrir að hún fari yfir í leiðinda norðanátt með kólnandi veðri og snjókomu á föstudaginn langa. Það lítur því út fyrir að páskahretið verði á sínum stað í ár,“ að sögn Helgu Ívarsdóttur veðurfræðings.

Austan 13-20 m/s. Rigning sunnantil, en slydda eða snjókoma fyrir norðan. Snýst í suðvestan 5-10 m/s sunnantil á landinu upp úr hádegi. Heldu hægari vindur í kvöld. Norðlæg átt 8-15 m/s á morgun og él, en skýjað með köflum og úrkomulítið á Suðurlandi. Hiti 0 til 7 stig sunnantil á landinu, en hiti um og undir frostmarki fyrir norðan.
Spá gerð: 11.04.2014 09:58. Gildir til: 12.04.2014 18:00.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum eða bjartviðri, en stöku él framan að degi norðan- og austantil. Vægt frost norðanlands, en hiti 0 til 5 stig sunnantil á landinu. 

Á mánudag:
Suðvestan 5-10 m/s, skýjað og úrkomulítið um landið vestanvert, en léttskýjað fyrir austan. Vaxandi vindur með rigningu eða slyddu síðdegis, fyrst vestantil. Heldur hlýnandi. 

Á þriðjudag:
Fremur hvöss suðvestan átt og skúrir eða él, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar þegar líður á daginn. 

Á miðvikudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s. Skúrir sunnantil, snjókoma eða él norðantil, en þurrt að mestu fyrir austan. Hiti við frostmark, en heldur hlýrra með suðurströndinni. 

Á fimmtudag (skírdagur):
Útlit fyrir vaxandi sunnan átt með slyddu eða rigningu, en snjókomu fyrir norðan. Hiti breytist lítið.

Það blés á þennan göngumann í Elliðaárdalnum í morgun
Það blés á þennan göngumann í Elliðaárdalnum í morgun mbl.is/Eggert Jóhannesson
Það var slydda í Árbænum í morgun
Það var slydda í Árbænum í morgun mbl.is/Eggert Jóhannesson
Veturinn minnti á sig í morgun að minnsta kosti í …
Veturinn minnti á sig í morgun að minnsta kosti í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Úlpurnar komu sér vel í veðrinu í morgun
Úlpurnar komu sér vel í veðrinu í morgun mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka