Spennustigið er hátt hjá áhangendum enska knattspyrnufélagsins Liverpool um þessar mundir enda hefur gengi liðsins verið með afbrigðum gott síðustu vikur og meistaratitillinn í sjónmáli í fyrsta skipti í 24 ár. Fáum er eins heitt í hamsi og Hönnu Símonardóttur, sem með góðri samvisku má kalla „frú Liverpool“, og fjölskyldu hennar í Mosfellsbæ.
Eins og svo margir sparkunnendur er Hanna hjátrúarfull og í vetur hefur hjátrúin verið með óvenjulegasta móti. Þannig er að systir Hönnu og mágur fluttu heim frá Bretlandi á síðasta ári. Mágurinn hefur engan áhuga á knattspyrnu en festi blund í sófanum heima hjá Hönnu meðan Liverpool vann stórsigur fyrir skemmstu. Þótti það hátterni að vonum góðs viti og mágurinn hefur mátt láta sig hafa það síðan að mæta í sófann meðan Liverpool er að spila. Ekki nóg með það, hann þarf að sjálfsögðu að festa svefn líka.
Eitthvað gekk illa að koma kappanum niður meðan leikið var gegn West Ham um liðna helgi. Hann reyndi að svíkjast undan merkjum og fylgjast með Formúlunni í snjallsímanum sínum. Á endanum sofnaði hann þó – og Liverpool vann leikinn.
Spurð hvort ekki þurfi að halda máginum vakandi aðfaranótt sunnudags svo hann sofi eins og barn yfir leiknum gegn Manchester City er Hanna fljót að svara játandi. „Það blasir við.“
Nánar er rætt við Hönnu og fleiri yfirspennta stuðningsmenn Liverpool í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.