Viðbúið er að flugfargjöld innanlands og milli landa hækki talsvert verði Reykjavíkurflugvelli lokað.
Flugfélagið Ernir áætlar að hækka þurfi fargjöld um 40% verði Keflavíkurflugvöllur eini flugvöllurinn á suðvesturhorni landsins. Ástæðan er m.a. sú að fækka þarf sætum í flugvélum félagsins til að þær beri nóg varaeldsneyti svo þær nái til varaflugvalla á Norður- eða Austurlandi. Flugleiðirnar munu lengjast og flugferðum mun fækka vegna minni sveigjanleika til athugana á flugi. Nýting starfsmanna versnar og eldsneyti úti á landi er um fjórðungi dýrara en á Keflavíkurflugvelli, að því er fram kemur í umfjöllun um Reykjavíkurflugvöll í Morgunblaðinu í dag.
Icelandair hefur reiknað út kostnað félagsins af því að missa Reykjavíkurflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavík. Áætlað er að á árunum 2015-2019, miðað við 10% aukningu flugs á ári, bætist við eldsneytiskostnaður upp á tæpar 468 milljónir. Tekjutap vegna þyngdar varaeldsneytis verður um 457 milljónir og kolefniskostnaður hækkar um 11 milljónir vegna kolefnislosunar.