Nærri 400 einstaklingar nema flug í fjórum flugskólum á suðvesturhorninu. Töluverður hópur þeirra er útlendingar. Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki í þjálfun flugnema. Lokun flugvallarins mun hafa afdrifarík áhrif á flugkennslu.
Flugskóli Helga Jónssonar í Reykjavík hefur starfað í hálfa öld. Hann hefur tekið um 12 nema á ári eftir að kreppti að í efnahagnum.
Flugnemar í bóklegu námi í Flugskóla Íslands – Tækniskólanum eru að jafnaði um 120-130 á ári, að sögn Reynis Einarssonar yfirflugkennara. Þar er kennt til einkaflugmannsréttinda, atvinnuréttinda, flugkennararéttinda auk blindflugs, þjálfunar í flughermi og í áhafnasamstarfi, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.