Lenti í vanda við Straumnes

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en var síðar afturkölluð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en var síðar afturkölluð. mbl.is/Sigurður Bogi

Landhelgisgæslunni barst neyðarkall um klukkan þrjú í nótt frá átta tonna fiskibáti sem var vélarvana um 1,6 sjómílur frá landi í Fljótavík, norðan Straumness. Tveir menn voru um borð. Um 20 mínútum síðar náðu mennirnir að koma aðalvélinni aftur í gang.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá LHG. Þar segir að eftir að neyðarkallið barst, hafi skipstjórinn áætlað að báturinn yrði kominn í strand eftir um það bil 40 mínútur, miðað við rekhraða.

Því voru björgunarsveitir í Hnífsdal, Bolungarvík og á Ísafirði kallaðar út, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Einnig var haft samband við báta í nágrenni sem héldu af stað áleiðis að bátnum. Sá sem var næstur vélarvana bátnum var í um 30 mínútna fjarlægð.

Um klukkan 03:20 var fiskibáturinn búinn að ná aðalvél í gang á ný og hélt sig til að byrja með fjær landi en sigldi svo áleiðis til Ísafjarðar undir eigin vélarafli.

Tuttugu mínútum seinna afþakkaði báturinn frekari aðstoð og voru björgunarsveitir afturkallaðar sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert