„Næsti lausi tími er 8. maí“

Heilsugæslustöð Árbæjar er með stærstu heilsugæslustöðvum á landinu.
Heilsugæslustöð Árbæjar er með stærstu heilsugæslustöðvum á landinu.

„Næsti lausi tími er 8. maí.“ Þetta var svarið sem þeir fengu sem reyndu að panta tíma hjá lækni á Heilsugæslustöð Árbæjar sl. föstudag. Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á heilsugæslustöðinni, segir að þessi langi biðtími sé óviðunandi, en hann skýrist af skorti á heimilislæknum.

„Þessi biðtími er auðvitað óviðunandi, en hann hefur verið að lengjast smá saman í nokkur ár. Ástandið hefur líklega aldrei verið eins slæmt og nú. Við erum með átta læknastöður á Heilsugæslustöð Árbæjar, en við stöðina starfa hins vegar ekki nema fimm læknar,“ segir Gunnar Ingi.

Hann segir að búið sé að reyna mikið til að fá fleiri lækna til starfa, en það hafi gengið illa að bæta úr ástandinu. Nú sé hins vegar verið að ganga frá ráðningu á sérfræðingi sem komi til starfa í haust. Það bæti ástandið, en meira þurfi að koma til.

„Það skiptir einnig máli að Heilsugæslustöðin í Árbæ er á vaxtarsvæði og því fjölgar skjólstæðingum okkar stöðugt. Þess vegna er ástandið hjá okkur verra en á sumum öðrum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu þar sem er engin íbúafjölgun. Það er lögbundin skylda okkar að skrá þá sem leita til okkar,“ sagði Gunnar Ingi og bætti við að fjölgun íbúa á svæði stöðvarinnar þýddi að það þyrfti að bæta við sem næmi einni læknisstöðu á ári.

Gunnar Ingi tók fram að það væri einn læknir og hjúkrunarfræðingur á vakt á stöðinni allan daginn frá kl. 8-16. Með þeim hætti væri leitast við að tryggja öryggi fólks sem þyrfti á læknisaðstoð á halda. Til viðbótar gæti fólk leitað til læknis á síðdegisvakt á milli kl. 16-18.

Gunnar Ingi sagði að það væri búinn að vera skortur á heimilislæknum í nokkur ár. Þó að það væri talsverður áhugi á námi í heimilislækningum væri ekki sjáanlegt að þetta ástandi væri að batna því að það væri nokkuð stór hópur lækna sem ætti aðeins fá ár eftir af sinni starfsævi og myndi brátt fara á eftirlaun.

„Það er býsna alvarlegt ástand sem skapast þegar það er búinn að vera mikill skortur á læknum í nokkur ár. Ein hlið þessa máls er að starfandi heimilislæknar hafa ekki tíma til að kenna læknanemum eins og þörf er á,“ sagði Gunnar Ingi.

Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á Heilsugæslustöð Árbæjar.
Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á Heilsugæslustöð Árbæjar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert