Fjallagarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir og félagar hennar komu í grunnbúðir Everest í gær. „Mér líst svo sannarlega vel a heimilið mitt til næstu sex vikna,“ skrifar Vilborg á bloggsíðu sína. Vilborg er nú komin í 5.300 metra hæð.
Hún segir að hópurinn sé með útsýni yfir Khumbu-ísfallið, en í raun búi hópurinn á jöklinum og að það sé ótrúlegt til þess að hugsa að hér sé hægt að búa öllu þessu fjallafólki heimili.
„Það er sérstaklega vel hugsað um okkur. Hver fjallamaður er með sértjald og það af stærri gerðinni, t.d. get ég staðið upprétt í mínu sem er óneitanlega kostur þess að vera ekki af hærri gerðinni,“ skrifar hún.
Þá segir Vilborg að hópurinn muni hvíla sig í dag og á morgun en eftir það hefjast frekari æfingar.
„Það er a.m.k. vika þar til við förum upp í ísfallið en þá skiptir miklu máli að vera sterkur og vel aðlagaður. Mér hefur liðið vel og aðlögun gengur vel en auðvitað aðeins fengið hausverk og verið aðeins andstyttri i brekkunum. Við erum komin í 5.300 metra hæð og á leiðinni hingað gengum við tvisvar upp í sambærilega hæð til að hjálpa til við ferlið,“ skrifar hún.
„Í morgun var svo önnur punja-blessunarathöfn með lama. Við vorum blessuð og búnaðurinn okkar líka svo fengum við ljósbrúnt duft í andlitið sem á að tákna langlífi. Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þessu með sherpunum, sem eru algjörlega frábærir,“ segir hún.
„Hópurinn minn er frábær og vel samstilltur. Almennt heilsast mönnum vel en aðeins hefur borið á kvefi eins og er mjög algengt. Við erum í yngri kanntinum en ég er i miðjunni hvað aldur varðar,“ segir hún ennfremur.
Líkt og greint hefur verið frá hyggst Ingólfur Ragnar Axelsson, þrítugur Akureyringur, einnig klífa Everest í vor. Vilborg greinir frá því að hún hafi ekki enn hitt Ingólf en á von á því að hópurinn hans sé væntanlegur í grunnbúðirnar innan tíðar.