Kaþólsku kirkjunni á Íslandi bárust engar ásakanir eða ávirðingar um ósæmilega háttsemi né kynferðisbrot Jóhannes Gijsen þau tólf ár sem hann þjónaði hér á landi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá kaþólsku kirkjunni á Íslandi.
„Hvers kyns ofbeldi, hvort heldur andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt er með öllu ólíðandi í augum Kaþólsku kirkjunnar. Taka verður tillit til barnanna, sem eru einstaklingar í fullri merkingu orðsins, eins og Frans páfi ítrekaði í dag.
Kaþólsku kirkjunni á Íslandi varð kunnugt um tilkynningu frá biskupsdæmi Roermond í Hollandi varðandi Jóhannes heitinn Gijsen biskup, er andaðist þar í landi í fyrra, í fjölmiðlum í dag. Rannsóknarnefnd Reykjavíkurbiskupsdæmis, sem hóf störf sín árið 2011, leitaði til fyrrverandi biskups Gijsen. Skriflegt svar barst frá honum til nefndarinnar. Kaþólska kirkjan birti 2. nóvember 2012 skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Eins og nú kemur fram í fjölmiðlum var staðfest að Gijsen biskup lét eyðileggja bréf, sem var þess eðlis að mati hans að ekki þurfti að vista í skjalasafni biskupsdæmisins. Rannsóknarnefndin fjallaði sérstaklega um þetta atvik og taldi ámælisvert. Fréttir dagsins um þetta bréf eru því hvorki óvæntar né nýjar.
Kaþólsku kirkjunni á Íslandi bárust engar ásakanir eða ávirðingar um ósæmilega háttsemi né kynferðisbrot í hans garð þau tólf ár sem hann þjónaði hér á landi. Gijsen fór á eftirlaun árið 2007 og ákvað að verja ævikvöldi sínu hjá Karmelsystrum í Hollandi. Eftir brottför sína kom hann aldrei aftur til Íslands.
Kaþólska kirkjan á Íslandi getur ekki tjá sig um málefni Gijsen biskups í Hollandi og því verðum við að vísa í tilkynningar frá biskupsdæminu í Roermond,“ segir í yfirlýsingunni.