Hvöss orðaskipti milli þingmanna

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð var kynnt í byrjun júlímánaðar …
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð var kynnt í byrjun júlímánaðar í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Hvöss orðaskipti urðu á milli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, fyrir helgi vegna skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð, sem kom út í byrjun júlímánaðar í fyrra, og þeirrar umræðu sem átti sér stað í kjölfar útgáfu skýrslunnar.

Í tölvupóstum, sem bárust öllum þingmönnum og Morgunblaðið hefur undir höndum, segir Sigríður Ingibjörg meðal annars að túlkun Ögmundar á útreikningum og mögulegu tapi Íbúðalánasjóðs byggist „annaðhvort á skilningsleysi eða vísvitandi afvegaleiðingu umræðunnar“.

Hún bætir því við að skeytingarleysi Ögmundar um að minnsta kosti hundrað milljarða króna tap ríkissjóðs, samkvæmt forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sé furðulegt.

Fram kom í fréttum af skýrslu rannsóknarnefndarinnar um Íbúðalánasjóð að tap hans frá stofnun hefði verið 270 milljarðar króna.

Í samtali við Morgunblaðið segir Ögmundur að þegar skýrslan kom út á sínum tíma hafi verið uppi mjög sverar yfirlýsingar og að fjölmiðlar hafi tekið upp málið á slíkum forsendum. „Við nánari athugun hefði ýmislegt mátt vera ósagt látið þá.“

„Þetta er óvenjuleg sending“

Í tölvupóstsamskiptunum nefnir Sigríður að útreikningar rannsóknarnefndarinnar hafi varðað innbyggða áhættu sjóðsins, en ekki það tap sem þegar hafi raungerst. Ögmundur svarar því hins vegar til að nefndin hafi sett fram þessa „innbyggðu áhættu“ sem tap sjóðsins í skýrslu sinni.

„Þetta er óvenjuleg sending frá þér, Sigríður Ingibjörg. Betur hefði verið að þú hefðir fært efnisleg rök fyrir máli þínu þegar þú sakar fólk sem er þér ósammála um „skilningsleysi eða vísvitandi afvegaleiðingu umræðunnar“,“ segir Ögmundur í einum tölvupóstanna.

Samskiptin má rekja til tölvupósts Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, til allra þingmanna. Þar óskar hann eftir meðflutningsmönnum frumvarps þess efnis að þrjár nætur hið minnsta verði að líða frá því að lokaskýrsla rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sé birt þar til hún sé tekin til umræðu í þinginu.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert