Hátt í 100 stúdentar taka nú þátt í mótmælum við fjármálaráðuneytið en mótmælin voru boðuð af Stúdentaráði Háskóla Íslands. Nemendurnir krefjast þess að samið verði í kjaradeilu Félags háskólakennara við ríkið en boðað hefur verið til verkfalls á lögbundnum prófatíma, dagana 25. apríl til 10. maí nk, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.
„Kæru stúdentar, við stöndum frammi fyrir verkfalli á prófatíma. Óþarfi er að telja til hve hræðilegar afleiðingar slíkt verkfall myndi hafa á bæði stúdenta og samfélagið allt. Við krefjumst þess að það verði samið. Of lengi hefur Háskóli Íslands verið fjársveltur og of lengi hafa stúdentar búið við óvissu um hvort þeir geti þreytt próf á réttum tíma,“ segir á facebook-síðu SHÍ.