„Við erum ekki hætt“

Gjaldtaka við Geysi.
Gjaldtaka við Geysi. mbl.is/Golli

„Ég lýsi vonbrigðum mínum með þetta, finnst lítið gert úr eignarétti einstaklinga miðað við eignarétt ríkisins,“ sagði Garðar Eiríksson, talsmaður landeigendafélags Geysis.

Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu í morgun að sýslumanninum á Selfossi beri að framfylgja lögbannskröfu fjármálaráðuneytisins á gjaldtöku landeigenda við Geysissvæðið.

Gjaldtöku hætt þegar í stað

Garðar segir að gjaldtöku hafi þegar verið hætt við Geysi, þó sýslumaður eigi enn eftir að framfylgja banninu. Hann segir að farið verði yfir málið í dag og næstu daga og tekin verði ákvörðun hvort úrskurðurinn verður kærður.

„Við erum ekki hætt. Við eigum þetta land sem er á leiðinni til andskotans vegna álags. Við ætlum ekki að láta það eyðileggjast þannig að ferðaþjónustuaðilar geti haft af því afnot án þess að greiða fyrir það,“ segir Garðar í samtali við mbl.is.

Gjaldtakan hófst 15. mars sl.  og kostaði 600 krónur að skoða svæðið.

Í yfirlýsingu frá landeigenda félaginu segir að niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands sé félaginu mikil vonbrigði. „Dómur vekur upp spurningar um eignarrétt og getur tafið verulega fyrir nauðsynlegri  verndun og uppbyggingu á Geysissvæðinu sem er þegar á lista Umhverfisstofnunar um þau verndarsvæði sem eru í mikilli hættu á að tapa verðgildi sínu.
 
Landeigendafélagið mun nú fara ítarlega yfir röksemdir dómsins og ákveða í framhaldi af því hver næstu skref félagsins í málinu verða.“

Brýtur gegn lögvörðum rétti ríkisins

Í niðurstöðu héraðsdóms frá í morgun segir að samkvæmt almennum reglum eignarréttar gildir sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þurfi til „óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem séu meiriháttar þótt venjulegar geti talist.“ Að mati dómsins hefur ríkissjóður sannað eða gert það sennilegt að sú athöfn landeigenda að selja aðgang að hverasvæðinu brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti ríkisins þar sem athöfnin muni skerða heimildir ríkisins til nota og ráðstöfunar á sameignarlandi þess, umferðarrétti um sameignarlandið og rétti  til þátttöku í ákvarðanatöku varðandi uppbyggingu á svæðinu.

Þá þykir sú ákvörðun landeigenda að selja aðgang að hverasvæðinu fela í sér grundvallarbreytingu á nýtingu og tilgangi sameignarsvæðisins sem fara þarf um til að skoða helstu hveri svæðisins, sem óumdeilanlega eru þau náttúrufyrirbæri sem draga að gesti, en umræddir hverir eru á séreignarlandi ríkisins.

Þá er einnig fallist er á það með ríkissjóði að sennilegt sé að innheimta gjaldsins muni skaða framtíðarafnot og hagsmuni ríkisins af svæðinu.     

Í úrskurðarorðum Héraðsdóms Suðurlands segir: „Lagt er fyrir sýslumanninn á Selfossi að leggja lögbann við því að forsvarsmaður Landeigendafélags Geysis ehf. innheimti gjald af ferðamönnum inn á Geysissvæðið, þ.e. inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð. 

Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.“

Frétt mbl.is: Lögbann á gjaldtöku við Geysi.

Dómurinn í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert