1 páskaegg = baðkar af grænmeti

Nú þegar styttist í páska eru flestir farnir að huga að því hvaða páskaegg þeir ætli að gæða sér á yfir helgina. Eggin eru sem fyrr af ýmsum stærðum og gerðum en það stærsta vegur 1 kg. mbl.is fékk Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðing, til að skoða nokkur páskaegg og rýna í það sem þjóðin mun innbyrða á næstu dögum.

Stærstu páskaeggin vega frá u.þ.b. 700 grömmum upp í eitt kíló og Steinar segir að það magn hitaeininga frá sykri sem er að finna í slíku eggi ætti að duga eðlilegri manneskju út árið og til þess að fá sama magn af hiteiningum í grænmeti þyrfti að borða um 10 kg af grænmeti sem fylla eitt baðkar.

Sáralítil næring er í súkkulaði og því er nánast um eintómar hitaeiningar að ræða í páskaeggjum, Steinar hvetur því landsmenn til að ganga hægt um gleðinnar dyr í súkkulaðiátinu og dreifa neyslunni yfir einhvern tíma. 

Athugasemd frá Steinari B. Aðalbjörnssyni, næringarfræðingi:

„Það skal tekið skýrt fram hitaeiningafjöldinn í egginu frá Nóa Siríus er ekki milli 6-7000 hitaeiningar heldur 4000 eins og kemur fram á merkingum vörunnar. Einnig skal tekið fram að sykurmagn í stórum eggjum gæti dugað út árið miðað við að einn dagur í viku sé nammidagur líkt og mælt hefur verið með. Steinar biður Nóa Siríus afsökunar á þessum leiðu mistökum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert