Telja ekki of seint að breyta háhýsinu

Búið er að reisa krana við hlið byggingarinnar og loka …
Búið er að reisa krana við hlið byggingarinnar og loka fyrir umferð neðst á Frakkastíg. Árni Sæberg

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur fjallaði á fundi sínum í síðustu viku um byggingu háhýsa við Skúlagötu 12-14. Háhýsin hafa sætt mikilli gagnrýni vegna yfirvofandi sjónmengunar frá Skólavörðuholti eftir Frakkastígnum. Á fundinum var lagt fram minnisblað skipulags- og byggingarfulltrúa borgarinnar sem áttu fund með verktökum nýverið um hvort hægt væri að draga úr sjónrænum áhrifum bygginganna á nærliggjandi umhverfi.

Í minnisblaðinu segir m.a. að aðeins sé um tvo kosti að ræða, annars vegar að hætta við framkvæmdina og hins vegar að lækka háhýsin um 4-5 hæðir. Þau myndu eftir sem áður standa út á götu og í sjónlínuna niður Frakkastíg. „Til þess að meta þann kost þarf að ákvarða fyrirsjáanlegan fjárhagsskaða verktakans og athuga þá möguleika sem þarf til að takast á við það.“

Þar segir einnig að þótt tæknilega sé hægt að hliðra báðum húsunum til vesturs, með mismiklum tilkostnaði, skipti skipulagshlið málsins þó mestu. „Tækist að ná samkomulagi við eigendur byggingarréttarins um bætur sem myndu hljótast af slíkri hliðrun stendur eftir, að gera þyrfti breytingu á deiliskipulagi sem tæki mið af umræddri færslu bygginganna. Viðbúið er að eigendur nærliggjandi fasteigna myndu gera athugasemdir við að Lindargötu 39 og Vatnsstíg 22 yrði hliðrað til vesturs með auknu návígi við stóra byggingarmassa og tilheyrandi skerðingu á sjónlínum,“ segir í minnisblaðinu.

Fátt um leiðir

Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir minnisblaðið ekki auka líkur á að hægt verði að hætta við byggingarnar eða færa þær til.

„Það virðist vera nokkuð ljóst að fátt er um leiðir úr því sem komið er, að breyta þessu skipulagi. Þetta byggingarmagn verður alltaf fyrir einhverjum, eins og fram kemur í minnisblaðinu. Ekki er hægt að sjá skipulagslega lausn nema að minnka byggingarmagnið, það er erfitt í stöðunni,“ segir Páll og bætir við að vilji þurfi einnig að vera til staðar hjá verktakanum til breytinga. Það flæki málið að búið sé að selja flestar íbúðir í húsinu. „Við sitjum uppi með ákvarðanir sem fyrir löngu er búið að taka.“

Páll segir borgaryfirvöld hafa tryggt það í nýsamþykktu aðalskipulagi að svona byggingar verði ekki teiknaðar og samþykktar framvegis.

Fyrst bent á þetta árið 2004

Tíu ár eru síðan hjónin Jon Kjell Seljeseth arkitekt og Elín Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfi, íbúar í Þingholtunum, vöktu fyrst athygli borgaryfirvalda á sjónmenguninni af háhýsunum við Skúlagötu. Þá var þeim sagt að passað yrði upp á að húsin stæðu ekki í sjónlínu á Frakkastíg. Við það var ekki staðið og árið 2008 rituðu þau borgaryfirvöldum bréf, um það leyti sem framkvæmdir stöðvuðust. Var því erindi ekki svarað fyrr en 2010, og sagt að málið yrði skoðað hjá borginni.

„Við heyrðum síðan ekkert frá borginni fyrr en við skrifuðum aftur bréf í febrúar 2014, en framkvæmdir voru þá komnar aftur í gang. Þá fengum við þau svör að eina úrræðið sem borgin hefði væri að höfða til samvisku verktakans, eða öllu heldur byggingaraðilans. Þetta er náttúrlega bara snilld,“ segir Jon Kjell og telur að ekki sé of seint að hætta við eða breyta byggingunni.

„Auðvitað átti borgin líka að nota tímann þegar framkvæmdir lágu niðri í sex ár og skoða málið gaumgæfilega. Borgin hafði heimild til að grípa inn í en gerði það ekki,“ segir hann og vísar til byggingarreglugerðar, þar sem segir að ef framkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur sé heimilt að fella byggingarleyfi úr gildi, að undangenginni aðvörun. „Sem betur fer eru komnar aðrar áherslur í skipulagsmálum en voru í brjálæðinu fyrir hrun. Turnarnir standa sem minnisvarðar fyrir brengluð gildi. Það er mjög dapurlegt að þetta skyldi fara svona en sýnir hvað yfirvöld hafa fá úrræði og völd þegar komið er svona langt með framkvæmdir. Við teljum engu að síður að það sé ennþá hægt að breyta þessu. Það er vissulega dýrt en það verður einnig dýrkeypt fyrir borgina til langs tíma að turninn fái að rísa þarna,“ segir Jon Kjell ennfremur.

Flókið mál og erfitt

Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, á sæti í umhverfis- og skipulagsráði og sat fundinn þegar minnisblaðið var kynnt. Hann telur margt benda til að of seint sé að snúa við. Ekki séu margar góðar leiðir til að færa húsið á byggingarreitnum, lækka það eða hætta við bygginguna þar sem búið sé að selja stóran hluta íbúða í húsinu.

Júlíus Vífill segir að ræða þurfi málið í borgarráði. Þar hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um að framkvæmdir á þessum stað yrðu endurskoðaðar. „Við viljum fá svar við okkar tillögu en ég dreg enga dul á að þetta er flókið mál og erfitt,“ segir Júlíus Vífill, og bendir á að enda þótt skipulagið hafi verið unnið í tíð R-listans í borgarstjórn hafi allir flokkar samþykkt skipulag Skuggahverfisins á árunum 2005 og 2006. Eldra skipulag frá árinu 1986 hafi gert ráð fyrir 13 hæða hóteli fyrir miðju reitsins og með lægri byggingum út til kantanna, sem kölluðust á við þá byggð sem fyrir var í Skuggahverfi.

Síðan hafi verið ákveðið að færa byggingar til á reitnum og færa turnana út að köntum lóðarinnar. Júlíus Vífill segir að í dag hafi fulltrúar allra flokka lýst efasemdum um þessa stefnu og þá framkvæmd, eins og hún blasir við, og þau áhrif sem byggingarnar munu hafa á útsýni til sjávar ofan af Skólavörðuholti. „Skipulag reitsins er orðið nokkurra ára gamalt og miklar byggingarframkvæmdir byggst á því. Ég tek undir með þeim sem hafa bent á að uppbygging á lóðinni leiði til útsýnisskerðingar og að þetta hefðu menn átt að sjá fyrir,“ segir hann.

Fréttir mbl.is:

Annað hvort að lækka eða hætta við

Milljón á fermetrann

Verstu skipulagsmistök í Reykjavík í áratugi

Nýbygging skyggir á sjónlínuna

Á myndinni til hægri má sjá hvernig turninn kemur til …
Á myndinni til hægri má sjá hvernig turninn kemur til með að breyta sjónlínunni. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert