Náttúrufræðingar sömdu á tíunda tímanum í kvöld um að jafnaði 6-7% launahækkun við Reykjavíkurborg. Að sögn Páls Halldórssonar, formanns Félags íslenskra náttúrufræðinga, fá félagsmenn mismikla launahækkun. Hann hafi viljað meiri hækkun duglegra starfsmanna.
Félagið er búið að semja við sveitarfélögin en á eftir að semja við ríkið. Samningurinn við borgina er til 18 mánaða og gildir út ágúst á næsta ári.
Allir séu ekki í sömu réttinni
„Það eru gerðar breytingar á launatöflu. Það er því mjög mismunandi hvernig þessi hækkun kemur út. Það má þó segja að við séu að semja um vel yfir 2,8% hækkun hjá félagsmönnum. Það get ég fullyrt. Einstaklingarnir bera mismikið úr býtum. Launatöflunni er breytt og þetta er því talsverð kerfisbreyting.
Miðað við aðstæður er ég ánægður. Við lítum á þetta sem ákveðna byrjun á endurskipulagningu launamála, að launakerfið verði tekið upp og því breytt. Það er auðvitað okkar vilji að það sé meira tekið tillit til árangurs og einstaklingsbundinna þátta í kjarasamningum. Að menn njóti þess í launum ef þeir leggja sig fram. Við viljum helst ekki hafa alla í sömu réttinni.
Við erum að þiggja og gefa eftir. Ákveðnir þættir sem var launað fyrir eru gefnir eftir en annað kemur á móti,“ segir Páll.