Aldrei fengið jafnmikil viðbrögð

Gísli Marteinn Baldursson er á leið í leyfi frá RÚV …
Gísli Marteinn Baldursson er á leið í leyfi frá RÚV til að sinna námi við Harvard næsta vetur. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Um fátt var meira rætt í febrúar en viðtal Gísla Marteins Baldurssonar við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins segir Gísli Marteinn frá því að viðtalið hafi komið honum á óvart og viðbrögðin verið ótrúlega mikil, en flest jákvæð.

„Ég var bara búinn að búa mig undir þetta viðtal líkt og önnur. Ég var búinn að taka viðtöl við fimm ráðherra úr ríkisstjórninni og hef reynt að spyrja þeirra spurninga sem ég tel að fólk vilji fá svör við,“ segir Gísli Marteinn í viðtali við Sunnudagsmoggann, sem kemur út á morgun.

„Ég reyni að vera með þá viðtalstækni að leyfa fólki að svara. Viðtalið fór bara eðlilega af stað, en svo fór það bara í það sem fór. Það sá öll þjóðin hvað gerðist. Það er ekkert hægt að spinna það eftir á.“

Gísli segist aldrei hafa fengið jafnmikil viðbrögð við neinu viðtali sem hann hefur tekið á ferlinum. „Þau voru nær eingöngu jákvæð. Tölvupóstarnir skiptu hundruðum frá ólíklegasta fólki úr öllum flokkum. Enginn flokkur er þar undanskilinn. Í þessum tölvupóstum notar fólk hástemmd lýsingarorð til að lýsa þakklæti og undrun yfir þessu. Ég er búinn að vera í sjónvarpi mjög lengi þannig að ég tók þessu öllu með jafnaðargeði. Sjónvarp hefur mjög sterk áhrif í stuttan tíma og svo kemur bara næsti þáttur.“

Gísli segist þó telja að stjórnmálamenn séu dæmdir yfir lengri tíma. „Eitt viðtal ætti ekki endilega að breyta sýn fólks á verk stjórnmálamanns. Það er engin ósk hjá mér að Sigmundur Davíð verði alltaf með þetta viðtal á bakinu og dæmdur af því. Ég var bara hissa á því í viðtalinu hvernig hann svaraði og ég held ég hafi meira að segja sagt það í miðju viðtalinu að mér fyndist þetta skrýtið viðtal.“

Ítarlega er rætt við Gísla Martein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út á morgun.

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins sem kemur í verslanir um páskahelgina.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins sem kemur í verslanir um páskahelgina. mbl.is
Margir urðu undrandi á viðtalinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, ekki …
Margir urðu undrandi á viðtalinu við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, ekki síst Gísli Marteinn sjálfur. Skjáskot/Rúv
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert