Tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður var hleypt af stokknum á Ísafirði í dag í 11. sinn. Á setningarathöfninni, sem fór fram í skemmu Gámafélagsins í Grænagarði á Ísafirði, voru margir mættir til þess að hlusta á fjölda þeirra tónlistarmanna sem munu láta ljós sitt skína á hátíðinni.
Að sögn viðstaddra gefur mætingin í kvöld góð fyrirheit um framhaldið. Færðin á Ísafjörð í dag var erfið og var öllu flugi þangað aflýst. Það kemur ekki að sök og eru flestar hljómsveitirnar nú að renna í hlað, ein af annarri eftir rútuferð vestur.
Á hátíðinni koma meðal annars fram hljómsveitirnar Grísalappalísa, Hjaltalín, Mammút, Retro Stefsson, Hermigervill, Kaleo og Highlands.