Á föstudaginn langa býður hefðin að hlýða á Passíusálmana. Hefðbundinn lestur þeirra hófst í Hallgrímskirkju kl. 13 og stendur í 5 tíma. En sálmarnir eru víða lesnir í dag og sumstaðar með óvenjulegu sniði, m.a. í Hafnarfjarðarkirkju þar sem fer fram maraþonsöngur allra sálma og í Grafarvogskirkju þar sem Megas flytur hluta þeirra.
Sálmarnir, sem taldir eru höfuðverk Hallgríms, eru 50 talsins þar sem píslarsaga Krists er rakin í bundnu máli í 817 erindum og yfir 23.000 orðum.
Margir höfðu komið sér fyrir á kirkjubekkjum Hallgrímskirkju kl. 13 þegar lesturinn hófst þar, en gestir staldra mislengi við og er öllum velkomið að koma og hlýða á lesturinn á hvaða tíma sem er. Aðgangur er ókeypis og eru gestir hvattir til að taka með sér sína eigin Passíusálma til að fylgjast með lestrinum.
Í tilefni 400 ára afmælis Hallgríms Péturssonar eru lesarar úr hópi fræðimanna, m.a. frá Árnastofnun.
Passíusálmarnir eru víðar lesnir í dag, m.a. eru þeir lesnir í heild sinni í Hóladómkirkju og einnig í Hólskirkju í Bolungarvík, þaðan sem lestri Pálma Gestssonar leikara er streymt í beinni á facebooksíðu kirkjunnar.
Í Hafnarfjarðarkirkju hafa öll erindi Passíusálma verið sungin í n.k. maraþonsöng í dymbilviku, alls yfir 12 klukkustundir af söng. Hallgrímur samdi Passíusálmana sem söngsálma við erlend sálmalög og um aldaraðir tíðkaðist að syngja þá í kirkjum landsins, þót nú séu þeir yfirleitt lesnir.
Upp úr aldamótum 1900 barst hljóðfæraleikur og nýrri lagagerðir til landsins, sem illa pössuðu við hrynjandi sálmanna og nær útrýmdu þessum söng. Tók þá við upplestur Passíusálma sem ráðandi form, en lögin varðveittust þó í munnlegri geymd og hafa nú verið skrifuð niður eftir gömlum upptökum.
Í Hafnarfjarðarkirkju eru gömlu þjóðlögin sungin og lýkur flutningi kl. 18 í dag með flutningi síðustu 5 sálmanna, auk fyrirlesturs Smára Ólasonar tónvísindamanns um þennan sögulega flutningsmáta.