„Ég er loksins búin að velja, og endaði á því að velja Princeton eftir langa umhugsun. Það var eiginlega ekki hægt að velja vitlaust,“ segir Guðrún Valdís Jónsdóttir, nemandi í sameindalíffræði við Háskóla Íslands, en henni var á dögunum boðin skólavist við Ivy-league-háskólana Harvard og Princeton í Bandaríkjunum.
Hún segir ástæðuna fyrir valinu hafa verið samspil nokkurra þátta. „Þetta réðst aðallega af tilfinningu. Ég heimsótti báða staðina síðastliðið sumar þannig að ég hugsaði um hvar mér myndi líða betur, þar sem ég mun dvelja þar næstu fjögur árin. Svo var það stærðin á háskólasvæðinu, nemendafjöldinn og svo spilaði fótboltinn stórt hlutverk, þjálfararnir og liðið og fleira. Ég fékk að kynnast liðinu í heimsókn minni þangað og tilfinningin var góð,“ segir Guðrún Valdís.
Námið við Princeton-háskólann kostar um sjö milljónir árið. Guðrún Valdís segir skólann þó bjóða upp á styrki fyrir nemendur. „Ég fæ fjárhagsstuðning frá skólanum en þeir eru með styrki fyrir nemendur eftir þörfum þeirra.“
Skólaárið í Princeton hefst í byrjun september og stefnir Guðrún Valdís á að fara utan um miðjan ágúst. „Ég er ekki alveg komin með nákvæmar dagsetningar en þetta verður sennilega um miðjan ágúst. Ég fæ að vita meira fljótlega þar sem ég er bara nýbúin að skila inn ákvörðun minni.“ Guðrún Valdís segist hlakka mikið til námsins en fyrst tekur við sumar hér á Íslandi. „Prófatörnin er að hefjast í Háskóla Íslands núna og svo mun ég vinna í sumar og æfa knattspyrnu með,“ segir Guðrún Valdís sem stundar nú nám í sameindalíffræði við HÍ. Vegna reglna knattspyrnudeildanna í Bandaríkjunum má Guðrún þó ekki keppa á Íslandsmótinu í sumar en Guðrún er markvörður hjá ÍA og hefur leikið unglingalandsliðsleiki með bæði 17 ára og 19 ára landsliðum Íslands.
Sjá frétt mbl.is: Komst inn í Princeton og Harvard