Árni Páll Árnason nemi er einn átta Íslendinga sem eru skráði í símaskrá með „ekki“ fyrir aftan nafn sitt.
Árni Páll Árnason „ekki stjórnmálamaðurinn“ eins og hann heitir á ja.is segist hafa sett þennan titil við nafn sitt í símaskránni í kringum kosningarnar síðasta vor.
„Ég vaknaði einn morguninn og sá að ég ætti að vera mættur í einhver fimm útvarpsviðtöl. Þá ákvað ég að taka upp símann, hringja í já.is og setja „ekki stjórnmálamaður“ fyrir aftan nafnið mitt,“ segir Árni Páll, sem segist nú vera alveg laus við áreitið frá fjölmiðlafólki og kjósendum sem vildu ná tali af stjórnmálamanninum.
Alls eru átta einstaklingar skráðir sem „ekki-fólk“ í símaskránni. Þeirra á meðal eru Ellen Kristjánsdóttir ekki söngkonan, Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir, Hjalti Rögnvaldsson ekki leikari og flugumferðarstjórinn Jón Karl Einarsson, sem er ekki kórstjórinn sem ber sama nafn.