Leyndardómar fundnir undir Jökli

Horft yfir Iður sem er neðsti hluti Vatnshellis. Þegar þangað …
Horft yfir Iður sem er neðsti hluti Vatnshellis. Þegar þangað niður á botn er komið lætur nærri að fólk sé 30 m undir yfirborðinu. Ljósmynd/Þröstur Albertsson

Hraunin yst á Snæfellsnes eru undraveröld. Þau eru úfin og fara þarf fetið þar sem stiklað er yfir steina, upp og niður skorninga og lautir, yfir gjallhjalla eða fram hjá sprungnum og gráum mosaþembum.

Hér erum við komin út á kalda röst þar sem brimið lemur á klettunum við Svörtuloft. Um þessar slóðir hefur Þór Magnússon á Gufuskálum oft farið síðustu árin og fundið þar hella og ýmsar hvelfingar sem voru flestum áður faldar. Það er hér sem steinarnir tala.

Á Gufuskála um aldamót

„Þetta svæði leynir á sér. Við hvert fótmál er eitthvað áhugavert,“ segir Þór Magnússon. Morgunblaðið fór með honum um þessar slóðir í vikunni og þá vorum við sem stödd inni í vísindaskáldsögu. Endur fyrir löngu skrifaði hinn frægi franski rithöfundur Jules Verne bókina Leyndardómar Snæfellsjökuls, þar sem sagði frá dulmálslyklinum sem Lidenbrock prófessor fann. Úr því varð ferðalag prófessorsins og félaga niður um gíg Snæfellsjökuls ofan í iður jarðar og allskonar hvelfingar uns þeir þeyttust á ógnarhraða aftur upp á jörðina og komu upp í gígnum á Stomboli skammt frá Sikiley við Ítalíustrendur.

Þór Magnússon fluttist með fjölskyldu sinni á Snæfellsnes upp úr aldamótum. Hafði lengi með höndum starfsemi þjálfunarbúðanna á Gufuskálum sem Slysavarnafélagið Landsbjörg starfrækti, en hefur nú verið lögð niður.

„Þessi hellaleit hefur ekki verið mjög skipulögð. Byrjaði á því að leitað var hvelfinga sem gætu nýst fyrir æfingar útivistarskólans á Gufuskálum, en með starfsemi hans átti að þjálfa og kenna ungu fólki úr unglingadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar allt um útivist og grunnþætti björgunarstarfa. Við Ægir sonur minn fórum að ganga hér um hraunin og höfum fundið fimm eða sex hella, sem ekki hefur verið vitnesja um áður. Til viðbótar fjölda smáhella og skúta sem sumir þarfnast nánari skoðunar við tækifæri. Í einni af þessum leitarferðum fengum við félaga okkar úr björgunarsveitinni Björg á Hellissandi með okkur,“ segir Þór og heldur áfram:

„Eftir nokkra yfirferð komum við að talsvert stóru niðurfalli með skútum bæði til suðurs og norðurs. Við tók talsvert skrið aðallega í syðri hlutanum, þar sem Davíð Óli Axelsson, formaður björgunarsveitarinnar, fór lengst. Því fannst okkur tilvalið að kalla hellinn Golíat honum til heiðurs. Seinna fórum við Ægir aftur á staðinn og skoðuðum norðurhluta Golíats og fundum þá aðalhellinn sem við mælingu telst nálægt 300 metra langur og er að hluta á tveim hæðum.“

Niður í þrönga rás

Það var 11. janúar síðastliðinn sem Þór fór í gönguferð í hraununum vestra. Gekk frá Svörtuloftum, þar sem Skálasnagaviti er. „Ég var kominn inn í Neshraun þegar ég sá tvær djúpar holur og hraunrás undir og þótti nokkuð spennandi að skoða betur. Ég tók GPS-hnit þeirra og viku síðar fór ég ásamt nokkrum félögum úr Hellavinum að kanna þetta betur. Þetta voru þeir Kristinn Jónasson bæjarstjóri, Óli S. Sigurjónsson og Lúðvík V. Smárason. Komum þá í helli sem var 20 metrar á lengd og 4-5 metrar á dýpt,“ segir Þór.

Hann bætir því við að menn hafi vænst þess að finna þarna eitthvað annað og meira. Vonbrigði, sagði einhver og þar með var nafnið komið. Svo var gengið áfram og komið að hól með skútum og hraundrýlum. Þar var lítið gat eða munni sem vakti forvitni manna, sem þar smokruðu sér niður í þrönga rás sem varð fljótt manngeng og greiðfær.

Hellirinn sem mældist um 100 metra langur skiptist upp í tvo stúta um það bil 30 metra frá munnanum, sem svo sameinast aftur í eina rás talsvert innar.

Morkin bein og eldstæði

„Þetta er ótrúlegur staður,“ segir Þór. Í hellinum eru gróðurrætur, hraunmyndanir, leggir af stórgripum, steinhleðslur og eldstæði. Beinin voru dökk og morkin. Eru það taldar geta verið vísbendingar um tímabundna mannvist í hellinum, sem engar heimildir eru þó til um. Vegna þessa gerði Þór út í leiðangur Guðbjörgu Gunnarsdóttur, þjóðgarðsvörð á Snæfellsnesi, Magnús A. Sigurðsson, minjavörð Vesturlands, og fleiri. Stórgripabeinin voru tekin til aldursgreiningar og annað skráð, mælt og myndað.

„Það er greinilegt að eldurinn í hellinum hefur verið hafður jafn lítill og mögulegt var til að reykur sæist helst ekki – sem hefði skapað athygli. Þá virðist sem tálma hafi átt inngöngu með stórum steini í hellisopi sem þarna hefur verið komið fyrir. Allt er þetta forvitnilegt og vonandi finnst lausnarorð í þessa gátu einhvern tímann,“ segir Þór um hellinn í Neshrauni sem hefur gefið hefur verið nafnið Leynir. Það er við hæfi, nánari staðsetning er ekki gefin upp til að verja staðinn ágangi.

Nánar er fjallað um hellana á Snæfellsnesi í Morgunblaðinu í dag.

Þór Magnússon í rannsóknarferð í Neshrauni í rigningarsudda nú í …
Þór Magnússon í rannsóknarferð í Neshrauni í rigningarsudda nú í vikunni. Í baksýn er Skálasnagaviti við Svörtuloft. mbl.is/Sigurður Bogi
Hringstiginn niður í Vatnshelli.
Hringstiginn niður í Vatnshelli. mbl.is
Þór Magnússon hefur fundið ýmsa hella og hvelfingar sem voru …
Þór Magnússon hefur fundið ýmsa hella og hvelfingar sem voru flestum áður faldar. mbl.is
Sumt í hellunum hefur varðveist óhreyft um aldir við góð …
Sumt í hellunum hefur varðveist óhreyft um aldir við góð skilyrði, svo sem þessi refur, sem holdið er horfið af svo beinagrindin ein er eftir. mbl.is
Eins og í sögu Jules Vernes, Leyndardómar Snæfellsjökuls, er skáldað …
Eins og í sögu Jules Vernes, Leyndardómar Snæfellsjökuls, er skáldað í skörð og sagt að úr Vatnshelli liggi leiðin til Stromboli við Sikiley. mbl.is/Sigurður Bogi
Ævintýraheimur leynist í hrauninu á Snæfellsnesi.
Ævintýraheimur leynist í hrauninu á Snæfellsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert