Atkvæðagreiðslu lýkur á hádegi

Framhaldsskólakennar
Framhaldsskólakennar mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Atkvæðagreiðslu félagsmanna í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum um nýjan kjarasamning þeirra við ríkið lýkur á hádegi í dag en hún hófst þann 11. apríl síðastliðinn. Niðurstöðuna þarf að kynna fyrir klukkan 16 á morgun.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, er vongóð um að samningurinn verði samþykktur. „Það eru skiptar skoðanir eins og alltaf en mér finnst sem meirihlutinn sé jákvæður fyrir samningnum,“ segir hún.

Almenn launahækkun um 6,8%

Í samningnum sem gildir frá 1. mars 2014 til 31. október 2016 felast nokkrar launahækkanir. Frá 1. mars á þessu ári hækka launin um 6,8%, annars vegar vegna almennra launahækkana og hins vegar um 4% sem skýrast meðal annars af því að skilin á milli prófatímabilsins  og kennslutímabilsins falla út og álagsþrep í launatöflu fellur út (0,298% hækkun).

Þá kemur þann 1. ágúst á þessu ári til 5% launahækkun vegna breytinga sem felast í samningnum, í tengslum við vinnu nýs vinnumats. Þann 1. janúar 2015 og 2016 verður 2% almenn launahækkun í hvort skipti og þann 1. maí 2015 kemur til 8% launahækkun vegna nýs vinnumats.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert