Fara ekki fleiri ferðir á Everest

Engar ferðir verða á Everest.
Engar ferðir verða á Everest. AFP

Leiðsögumenn á Everest-fjalli ákváðu í dag að hætta allri starfsemi sinni á fjallinu. Engar ferðir verða því farnar. Með þessu minnast þeir fallina félaga sem létust í snjóflóðinu sem féll skammt frá grunnbúðum á föstudag. Ingólfur Axelsson, sem staddur er í grunnbúðum fjallsins, segir skilning ríkja um kjarabaráttu sjerpanna.

Tveir Íslendingar eru í grunnbúðum Everest, þau Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson, sem bæði höfðu ráðgert að komast á tindinn. Ekki er útlit fyrir að af því verði þar sem sjerparnir gegna lykilhlutverki við að koma fjallgöngumönnum á toppinn.

„Þetta er í höndunum a sjerpunum. Allar tilkynningar núna eru partur af kjarabaráttu og þeim skal taka með stóískri ró. Klifrararnir standa med sjerpunum og allar ákvarðanir um framhaldið eru teknar í samráði við okkar sjerpa,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is. Hann segir meðbyr og samhug vera með fjölskyldum sjerpanna sem létu lífið og skilning ríkja um kjarabaráttuna meðal fjallgöngumanna.

Sumir sjerpar eru þegar farnir úr grunnbúðunum en aðrir munu fara í vikunni.

Leiðsögumennirnir höfðu áður hótað því að leggja niður störf en þeir krefjast þess að settur verði á laggirnar sjóður fyrir þá. Í sjóðinn vilja þeir að renni um 30% af gjaldi sem tekið er af fjallgöngumönnum og líftryggingar þeirra verði tvöfaldaðar.

Lík þrettán leiðsögumanna hafa fundist í snjóflóðunum. Þriggja er enn saknað. Níu tókst að bjarga. Snjóflóðin fóru af stað er sjerparnir voru á leið með búnað fjallgöngumanna upp á fjallið. Fjallgöngumennirnir biðu í grunnbúðum á meðan. 

Fréttaveita AFP hefur eftir einum leiðsögumannanna, Tulsi Gurung, að allir sjerpar hafi verið sammála um ákvörðunina. Þá spurði annar hvernig þeir ættu mögulega að geta stigið fæti á fjallið eftir að sextán manns hafi látist á fyrsta degi klifurs.

Bandaríski fjallgöngumaðurinn Ed Marzek sagði við AFP að kjarabæting væri ekki eina málið í huga sjerpanna, heldur einnig mikilvægi þess að heiðra minningu þeirra sem létust.

Frétt mbl: Hóta að hætta öllum ferðum á fjallið

Ingólfur Axelsson.
Ingólfur Axelsson. Af Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert