Læknir braut persónuverndarlög

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. Morgunblaðið/ ÞÖK

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að læknir hafi brotið gegn lögum um persónuvernd þegar hann ritaði grein um fyrrverandi sjúkling sinn og fékk birta í Morgunblaðinu. Þá er sjúklingnum bent á að telji hann sig hafa orðið fyrir miska vegna umfjöllunarinnar geti hann krafist skaðabóta.

Læknirinn nafngreindi ekki sjúklinginn í grein sinni sem birtist í fyrra en Persónuvernd segir engu að síður að ráða megi, meðal annars vegna fyrri greinarskrifa læknisins um sama sjúkling, að greinin sé um þennan tiltekna einstakling.

Persónuvernd segir að í greininni sé ítarleg umfjöllun um heilsufar og sjúkdómsgreiningu mannsins sem byggð sé á gögnum sem hann afhenti lækninum. Upplýsingar um heilsuhagi teljist viðkvæmar persónuupplýsingar og hafi læknirinn ekki sýnt fram á að honum hafi verið heimilt að gera þær opinberar.

Sjúklingurinn óskaði þess einnig að Persónuvernd færi fram á það við Morgunblaðið að umrædd grein yrði fjarlægð úr greinarsafni blaðsins. Stofnunin segir hins vegar að stjórnvöld geti almennt ekki mælt fyrir um að greinarskrif einstaklinga séu fjarlægð úr fjölmiðlum. „Telji kvartandi sig hafa orðið fyrir tjóni, s.s. varanlegum miska, vegna umfjöllunar um sig er unnt að krefjast skaðabóta á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka