Arkitektinn Jon Kjell Seljeseth segir að ekki hafi verið almennilega sýnt hvernig 19 hæða turn sem nú er verið að reisa neðst við Frakkastíg myndi skaga út í götuna og hafa áhrif á götumyndina ofan af Skólavörðuholti. Hann hafi þó grunað að það væri raunin og reyndi ítrekað að koma því á framfæri.
Hann segist hafa farið ásamt konu sinni Elínu Ebbu Ásmundsdóttur á fund með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þáverandi formanni skipulags- og byggingarnefndar borgarinnar og síðar borgarstjóra, til að segja henni frá áhyggjum sínum af því að byggingin myndi eyðileggja götumynd Frakkastígs. Í frétt RÚV hefur hún neitað því að sá fundur hafi átt sér stað en borgarstjórn samþykkti deiliskipulagið í Skuggahverfi einróma árið 2006.
Fyrir stuttu kom fram að borgaryfirvöld hefðu fundað með framkvæmdaraðilum um hvort væri hægt að minnka sjónræn áhrif byggingarinnar en mikil andstaða er við bygginguna og mynd þar sem Jon teiknaði bygginguna gróflega inn á ljósmynd sem tekin er niður Frakkastíginn og dreifði á netinu hefur fengið sterk viðbrögð.
mbl.is ræddi við Jon Kjell.
Fyrri fréttir mbl.is:
Annað hvort að lækka eða hætta við
Verstu skipulagsmistök í Reykjavík í áratugi
Nýbygging skyggir á sjónlínuna