Selur kaffi út um gluggann heima hjá sér

Sverrir Rolf Sander í glugga heimilis síns að Baldursgötu þar sem hann starfrækir kaffihús

„Þetta virkar bara þannig að þegar ég er heima, þá er glugginn opinn og skiltið útí glugga eða úti á götu og þá er hægt að koma og fá sér kaffi,“ segir Sverrir Rolf Sander sem í gær opnaði kaffihúsið Puffin Coffee heima hjá sér að Baldursgötu 26 í Reykjavík. Kaffihúsið er þó sérstakt að því leyti að bollinn er ókeypis en fólki er þó frjálst að gefa fjárframlög en kaffihúsið er rekið til styrktar rannsókna á einhverfu.

„Þetta byrjaði allt á því að skráði mig í hjólaferð í Bretlandi í haust. Ferðin snýst um það að hjóla frá Manchester til London og er tilgangur hennar að vekja athygli á einhverfu og safna peningum til styrktar rannsókna á henni. „Ég þarf að borga sérstakt skráningargjald nú þegar úr eigin vasa og svo þarf ég einnig að safna utanaðkomandi áheitum að ákveðinni upphæð sem fer beint til styrktar rannsókna á einhverfu,“ segir Sverrir.

Fyrirtækið sem heldur utan um hjólaferðina heitir Rapha en öll áheiti renna til Ambitious about Autism Ambitious sem starfrækt er í Bretlandi. Áætlað að ferðin frá Manchester til London, sem er um 350 km löng, taki einn dag.

„Ég fór svona að velta því fyrir mér hvernig ég ætti nú að safna þessum áheitum. Auðvelda leiðin hefði líklegast verið að búa til söfnun á netinu þar sem fólk gæti bara millifært beint úr sófanum. Ég ákvað þó að byrja á þessu svona, þó svo að peningarnir streymi ekkert inn. Ég bind miklar vonir við mátt Facebook og Twitter og að fólk fylgist með opnunartímum þar. Hjólaferðin er 7. september næstkomandi og planið er að halda þessu gangandi frameftir sumri. Þetta var nú bara opnað í gær, en það er allavega planið. Opnunartímarnir eru algjörlega handahófskenndir, það gerir þetta bæði spennandi og jafnvel pirrandi því það er erfitt að stóla á þetta.“

En af hverju varð það fyrir valinu að styrkja einhverfu?

„Sonur besta vinar míns er greindur með einhverfu þannig þetta stendur nokkuð nærri mér. Einnig er ég að læra sálfræði þannig ég hef kynnt mér þessa þroskaröskun. Það er allt of lítið vitað um ástæður hennar. Ég er líka áhugamaður um hjólreiðar og ég vildi bara gott af mér leiða, mér finnst þetta svo fallegur málstaður.“

Á Puffin Coffee notast Sverrir við hefðbundna espresso-kaffivél þar sem hann getur lagað espressokaffi, café Americano og café latté, en Sverrir býður einnig uppá tvær mismunandi uppáhellingar, Kalita drip og Aeropress.

Sverrir hefur ekki langt að sækja áhugann á kaffi en kaffigerð hefur lengi verið í fjölskyldu hans. „Amma mín og afi áttu kaffihús og móðir mín rak það þannig ég hef alltaf verið umkringdur kaffi. Ég er ekkert lærður eða neitt þannig en þetta er bara áhugamál. Fólk getur dæmt hversu góður bollinn er hjá mér og gefið fjárframlög í takt við það. Ég get ekki lofað að kaffibollinn sé sá besti í heimi en ég reyni að leggja ástríðu og vandvirkni í verkið.“

Aðspurður segir Sverrir að áhuginn hafi verið nokkuð góður í gær og í dag. „Ég opnaði í dag bara fyrir svona 5 mínútum. Það komu ekki margir í gær en það komu þónokkrir og síðan hefur verið ágætis áhugi á Facebook. Við náðum líka að veiða fólk af götunni í gær sem var frammúr mínum björtustu vonum.“

Facebook síða Puffin Coffee.

Twitter síða Puffin Coffee.

Heimasíða Rapha.

Hér sést búnaðurinn sem Sverrir notar við kaffigerðina
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert