Undirskriftasöfnunin á www.þjóð.is, sem hófst kl. 22 sunnudaginn 23. febrúar, lýkur sunnudaginn 27. apríl kl. 22. Söfnunin hefur þá staðið í rétta 63 sólarhringa. Rúmlega 53 þúsund hafa skrifað undir áskorun á síðunni um að leggja til hliðar þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að ESB til baka.
Stefnt er að því að afhenda alþingismönnum undirskriftalistana um komandi mánaðamót, en fyrst þarf að ganga frá nafnalistum, keyra saman við þjóðskrá og búa til prentunar, segir í fréttatilkynningu.
Áskorunin er svohljóðandi:
Við undirrituð skorum á Alþingi að leggja til hliðar tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar verði spurt:
Vilt þú ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem hófust með ályktun Alþingis 16. júlí 2009, eða vilt þú slíta þeim?