Tekur vel í einhliða makrílkvótann

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir ákvörðun íslenskra stjórnvalda um einhliða makrílkvóta á miðunum við Ísland jákvætt skref. Þetta segir í yfirlýsingu frá Helene Banner, talsmanni Mariu Damanaki sjávarútvegsstjóra sambandsins, sem birt er á vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar í dag.

„Tilkynning Íslands um einhliða makrílkvóta er jákvætt skref. Hann kemur heim og saman við þá hlutdeild sem Íslendingar höfðu áður farið fram á í makrílviðræðum strandríkjanna. Það er að segja 11,9% af 1.240.000 tonnum. Evrópusambandið hefur frá upphafi sagt að Ísland geti orðið aðili að makrílsamningnum [á milli sambandsins, Noregs og Færeyja] og við gætum nú verið mjög nálægt því að ná samningi sem nær til allra strandríkjanna,“ er haft eftir Banner.

Evrópusambandið hvetji fyrir vikið Ísland til þess að koma að samningaborðinu ásamt sambandinu, Norðmönnum og Færeyingum við fyrsta tækifæri til þess að ná slíkum samningi. 

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert