„Amma“ strauk lim tíu ára drengs

Úr dómsal.
Úr dómsal. Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 44 ára gamla konu í fjögurra mánaða skilorðbundið fangelsi fyrir að brjóta gegn 10 ára gömlum dreng sem hún tengist fjölskylduböndum. Konan viðurkenndi að hafa strokið beran getnaðarlim drengsins, en sagði það hafa verið gert í stríðni. Móðir drengsins gaf skýrslu fyrir dómi og sagði að í heimalandi þeirra myndi svona lagað ekki vera litið alvarlegum augum.

Samkvæmt ákæru braut konan gegn barnabarni sínu í nóvember 2012 á sameiginlegu heimili þeirra í Reykjavík. Í niðurstöðu dómsins kom fram að drengnum var mjög misboðið og að atvikið hafi valdið honum vanlíðan. „Gat ákærðu ekki dulist þær afleiðingar sem gerðir hennar hefðu í för með sér fyrir drenginn,“ segir í dómnum. Þá er greint frá því í dómnum að konan hafi ekki flutt út af heimilinu eftir að málið kom upp, þrátt fyrir að starfsfólk Barnaverndar hefði mælst til þess að hún færi þaðan.

Í dómnum kemur fram að drengurinn hafi kallað konuna ömmu sína eins og tíðkanlegt sé að ávarpa ættingja í virðingarskyni í heimalandi hans. Ekki er hins vegar greint frá því hvernig konan er tengd drengnum fjölskylduböndum. Dómurinn segir konuna hafi brugðist trúnaðartrausti drengsins, hún hafi tengst honum fjölskylduböndum og dvalist á heimili hans. „Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka