Geimbúningur tolllagður eins og föt

Búningurinn á Könnunarsögusafninu á Húsavík.
Búningurinn á Könnunarsögusafninu á Húsavík.

Tollayfirvöld settu eftirlíkingu af geimbúningi sem verður til sýnis á Könnunarsögusafninu á Húsavík í sama tollflokk og tískuvarning þegar hann kom til landsins. Eigandi safnsins þurfti því að greiða um 100.000 krónur til að leysa búninginn úr tollinum.

Til stendur að opna Könnunarsögusafnið að Héðinsbraut 3, þar sem Reðasafnið var áður til húsa, í bænum 10. maí. Aðalsýningarrými safnsins er helgað geimferðum og æfingum bandarískra geimfara fyrir Apollo-tunglleiðangrana í Þingeyjarsýslu á 7. áratug síðustu aldar.

Þess vegna hefur Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri safnsins, undanfarið flutt inn ýmsa muni sem verða þar til sýnis, þar á meðal geimbúninginn.

„Þetta er eftirlíking af búningi sem var notaður í Apollo-leiðöngrunum og er gerður af fyrirtæki sem býr til svona búninga fyrir kvikmyndir. Það er nú vissulega hægt að klæðast honum en fólk myndi aldrei nokkurn tímann kaupa hann til að nota sem fatnað. Þetta er bara sýningargripur. Þetta er flokkað eins og ég hefði keypt mér minkaskinnskápu eða eitthvað þannig,“ segir Örlygur Hnefill.

Aðra muni sem verða á safninu eins og stórt sýningarlíkan af geimflaug hefur tollurinn flokkað sem leikföng, meðal annars. Örlygur Hnefill telur þó lítið við starfsmenn tollsins að sakast. Það sé kerfið sjálft sem þurfi að endurskoða enda eigi það erfitt með að höndla nýja hluti.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra eru safnmunir sem fengnir eru hingað til lands til varanlegrar sýningar ekki undanþegnir tolli. Það fari eftir eðli hlutarins hvernig hann sé flokkaður eftir tollskrá. Upphæðin miðist við verðmæti vörunnar ásamt flutningsgjaldi og kostnaði við að flytja hann til landsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka