Auður pallur í stað Pallsins

Völundur Snær Völundarson sjónvarpskokkur og Þóra Sigurðardóttir rithöfundur og blaðamaður.
Völundur Snær Völundarson sjónvarpskokkur og Þóra Sigurðardóttir rithöfundur og blaðamaður. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Matreiðslumaðurinn Völundur Snær Völundarson og Þóra Sigurðardóttir eiginkona hans sjá ekki fram á að geta opnað veitingastað sinn Pallinn á Húsavík í sumar eins og undanfarin sumur. Ástæðan er „háheilagt deiliskipulag“ bæjaryfirvalda.

Í aðsendri grein hjónanna á fréttavefnum 640.is - Norðurþing og nágrenni rekja þau stöðu Pallsins en staðurinn var fyrst opnaður 2. júní 2012 og er aðeins rekinn yfir sumartímann. Pallurinn fékk meðal annars toppeinkunn í ferðabókinni Lonely Planet og litu eigendur staðarins því bjartsýnum augum á sumarið.

En gefum Völundi og Þóru orðið: „Nú blasir hins vegar við að saga Pallsins er öll og ekki virðist frá því hvikað. Ástæðan er sögð ófrávíkjanlegt deiliskipulag - svo háheilagt að ekki er til umræðu að breyta því. Menn bera fyrir sig stöðuleyfi og þá ósanngirni gagnvart öðrum veitingamönnum að við greiðum ekki fasteignagjöld af skúrunum. Fasteignagjöld eru eins og allir vita bara dropi í hafið miðað við allt hitt sem skilar sér til samfélagsins. Auk þess greiðum við leigu enda ekki sjálfgefið að eiga húsnæðið sem reksturinn er í. Engu máli virðist skipta því sem Pallurinn skilar samfélaginu, þau störf sem hann veitir, þá veltu sem af honum skapast eða nokkuð annað.“

Þá kemur fram að tíu manns starfi á Pallinum og séu það því töpuð störf á Húsavík. Einnig segjast þau hafa staðið í þeirri meiningu að Pallurinn hefði skapað sér ákveðna sérstöðu og væri skemmtileg viðbót við mannlífið, því séu skipulagsforkólfar bæjarins hins vegar ekki sammála. „Tók hæstvirtur Byggingar- og skipulagstjóri, Gaukur Hjartarson, meira að segja svo til orða að það væri til nóg af veitingastöðum sem að viðskiptavinir Pallsins gætu leitað til.“

Ennfremur taka þau hjón fram í grein sinni að ekkert komi til með að rísa þar sem Pallurinn er nú. „Hann er ekki fyrir neinu. Þarna verður bara auður pallur að öllu óbreyttu. Það er því með miklum trega að þessi orð eru skrifuð og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana að Pallurinn sé allur. Ég skora því á skipulags- og bæjaryfirvöld að heimila okkur að starfa áfram. Það getur ekki verið svo flókið.“

Grein Völundar og Þóru í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert