Á síðasta ári greindust 2.179 klamydíutilfelli hér á landi. Þetta voru 673 tilfelli á hverja 100.000 íbúa, sem er 13,8% aukning frá árinu á undan og hæsta tíðni í Evópu. Flestir þeirra sem greindust voru á aldrinum 20-24 ára.
Þetta sýna tölur frá embætti landlæknis. Af þessum 2.179 tilfellum voru 896 karlar og 1.241 kona. Tilvik þar sem ekki var greint frá kyni voru 42, en þá hafa sýni verið send undir dulkóðuðu einkenni til greiningar.
„Samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Evrópu erum við Evrópumeistarar í klamydíu og höfum verið frá a.m.k. 2003,“ segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir sóttvarna hjá embætti landlæknis í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu ídag.