„Er hægt að tryggja öryggi viðskiptavina úr vanbúnum eldhúsum?“ Svona spyr Hjálmar Bogi Hafliðason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Húsavík, vegna þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar að veita veitingastaðnum Pallinum ekki áframhaldandi stöðuleyfi en án þess er rekstrinum sjálfhætt.
Eins og greint var frá á mbl.is í gær eru Völundur Snær Völundarson og Þóra Sigurðardóttir, eigendur Pallsins, afar óánægð með ákvörðun bæjarstjórnar Húsavíkur. Í aðsendri grein sinni skora þau á skipulags- og bæjaryfirvöld að heimila veitingastaðnum að starfa áfram, enda hverfi með Pallinum tíu stöðugildi og skemmtileg viðbót við mannlífið á Húsavík.
Hjálmar Bogi sendi fréttavefnum 640 - Norðurþing og nágrenni einnig grein vegna Pallsins. „Hvers eiga þeir aðilar að gjalda sem kosta því til að byggja upp mannvirki sem fullnægja ákvæðum skipulags og reglugerða til reksturs og borga af þeim gjöld til samfélagsins meðan aðilinn við hliðina rekur sín viðskipti úr óskráðum skúrum?“
Hann segir ákvarðanir bæjarfulltrúa ekki byggjast á því hvort matur og þjónusta á Pallinum hafi verið til mikillar fyrirmyndar né hvort verð hafi verið lægra en á öðrum veitingastöðum. Skipulag fyrir svæðið hafi verið staðfest í bæjarstjórn 18. september 2012 og þá hafi eigendur Pallsins ekki gert neinar athugasemdir. Eftir því sé unnið. „Deiliskipulag er mannanna verk sem ekki er meitlað í stein, sumarveitingastaðurinn Pallurinn bauð upp á frábæran mat, góða þjónustu og skemmtilega upplifun, það leyfi sem staðurinn hafði rann út 1. okt. 2013 og staðurinn hefur ekki verið starfsræktur síðan í september árið 2013.“