„Ég er í Sjálfstæðisflokknum og ég ætla að vera áfram í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður flokksins, í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn í Ríkisútvarpinu í morgun spurð hvort hún hefði hug á að ganga til liðs við fyrirhugaðan hægriflokk hlynntan inngöngu í Evrópusambandið.
Ragnheiður sagðist hafa verið þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og ætti ekki von á því að það breyttist. „Þannig að ég ætla bara að halda áfram að vera í mínum flokki,“ sagði hún. Hins vegar gagnrýndi hún Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vera einstrengingslegan. Það væri ekki ávísun á aukið fylgi.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur áður sagt að hann ætlaði ekki að ganga úr flokknum en hann hefur líkt og Ragnheiður verið hlynntur inngöngu í Evrópusambandið. Hann ætlaði þess í stað að breyta flokknum innanfrá.