„You have the right to remain silent. Anything you say can and will be used against you in a court of law. You have the right to speak to an attorney, and to have an attorney present during any questioning. If you cannot afford a lawyer, one will be provided for you at government expense.“ Svona hóf Helgi Hrafn, þingmaður Pírata, umræðufundinn „Réttur borgaranna í samskiptum við yfirvald,“ sem haldinn var í Bíó Paradís í gær.
Flestir þekkja þessa setningu eflaust úr amerískum kvikmyndum og varpaði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, meðal annars fram þeirri spurningu, hvaða réttindi manneskja á Íslandi hefur við handtöku, og hvernig henni er tilkynnt um þau réttindi. Var þar tónninn sleginn fyrir umræðufundinn sem var hinn áhugaverðasti.
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins fór yfir sjónarmið sín í persónuverndarmálum. Telur hann að orðið „almannahagsmunir“ sé túlkað allt of rúmt og að jafnvægi á milli almannahagsmuna og friðhelgi einkalífs sé stöðugt að raskast, friðhelgi í óhag. „Ætli þetta endi á því að lögreglan geti gengið inn á hvaða heimili sem er, hvenær sem er, bara til að athuga hvort heimilisofbeldi sé að eiga sér stað? Við hlæjum að þessu í dag, en staðan gæti orðið önnur eftir 20 ár.“
Þá sagðist Brynjar ánægður með að Píratar væru að vekja athygli á málaflokknum á þinginu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sagðist almennt telja að Íslendingar væru vel upplýstir um réttindi sín. Rökstuddi hann það meðal annars með því að bera saman viðmót þeirra sem hringja í neyðarlínuna í Bandaríkjunum og á Íslandi. „Í Bandaríkjunum gefa allir strax upp þær upplýsingar sem þeir hafa en hér á landi er fólk meira hikandi við að gefa upplýsingar eins og til dæmis hversu mörg vitni hafi verið að atburðinum og svoleiðis.“
Benti hann á að á Íslandi eiga þeir sem handteknir eru ákveðin réttindi og að lögreglu beri að tilkynna þeim þau réttindi við handtökuna. Innri endurskoðun lögreglunnar bendi til þess að vel sé staðið að því.
Þótt hann telji flesta nokkuð vel upplýsta um eigin réttindi þá sagði hann jafnframt að margir halda að hér ríki bandarískt réttarfar. „Fólk veit oft ekki hvort hér á landi eru kviðdómar eða ekki.“
Helgi Hrafn spurði Stefán hvort ekki væri réttara að hafa staðlaðan frasa um öll réttindi sakbornings og vitnis líkt og tíðkast í Bandaríkjunum. Þá spurði hann einnig hvort ekki væri réttara að leggja afdráttarlaust bann við því að sönnunargögn sem aflað er með ólögmætum hætti séu lögð til grundvallar í dómsmáli, en slíkt fortakslaust bann er ekki að finna í íslenskum lögum. Stefán svaraði því að til umræðu hefði komið að búa til staðlaðan frasa, en ákvörðun verið tekin um að gera það ekki. Stefán taldi þá Helga Hrafn og Brynjar stunda „kirsuberjatínslu“ og aðeins benda á það jákvæða við amerískt sakamálaréttarfar. Á ýmsum öðrum sviðum byggju Bandaríkjamenn við minni réttindi en Íslendingar, og gátu Brynjar og Helgi báðir tekið undir það.
Töluvert var rætt um forvirkar rannsóknarheimildir. Stefán sagði umræðuna um slíkar heimildir hafa verið litla á undanförnum árum, en að Pírötum hefði tekist að opna aðeins á þá umræðu. Lögreglustarfið hefði breyst á undanförnum áratugum úr því að vera „reaktívt“ starf yfir í að vera „próaktívt“ starf (ísl. forvirkt). Forvirkar heimildir, líkt og í umferðarlögum, væru viðurkenndar af samfélaginu. Þá sagði hann það vekja undrun sína hvað þingmenn væru tregir til þess að skoða forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, en í öðrum málum þar sem friðhelgi einkalífs er skert, rynnu slík mál í gegnum þingið mótþróalaust, líkt og með gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Þá sagðist hann styðja það að eftirlitsheimildir með störfum lögreglunnar myndu aukast ef til forvirkra rannsóknarheimilda kæmi, enda væri það gríðarlega mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna.