Mér finnst gott að búa á Íslandi

Augustin flytur gæðakaffi til Íslands beint frá Rúanda
Augustin flytur gæðakaffi til Íslands beint frá Rúanda mbl.is/Þórður

Augustin flytur gæðakaffi til Íslands beint frá Rúanda og styður þannig kaffibændur í heimalandi sínu, sem flestir eru kvenkyns, því mikill fjöldi karlmanna var myrtur þar í þjóðarmorðunum. Kaffisopinn á Kigali-kaffihúsinu sem Augustin opnaði nýlega í miðbæ Reykjavíkur er einstaklega ljúffengur svo ekki sé talað um súkkulaðikökuna sem hann bakar eftir uppskrift frá Rúanda.

„Ég kom fyrst til Íslands fyrir fimmtán árum, en þá fór ég að vinna í frystihúsi í Hnífsdal og það var þungur vetur. En Íslendingar hafa tekið vel á móti mér og ég kann vel við mig hér í norðrinu og hef búið hér meira og minna allt frá því ég kom hingað fyrst,“ segir Augustin Dufatanye, en hann opnaði nýlega kaffihúsið Kigali við Ingólfsstræti í Reykjavík. Þar er m.a hægt að fá gæðakaffi sem hann flytur beint frá bónda í Rúanda. Nafnið á kaffihúsinu sækir hann í heimaland sitt, en höfuðborg Rúanda heitir Kigali. „Þótt ég hafi fæðst þar ólst ég ekki upp í Rúanda, því ég og fjölskylda mín fluttum til Búrúndí þegar ég var barnungur. Við bjuggum líka um tíma í Kenía og öðrum löndum, en ég gleymi ekki uppruna mínum og ég á skyldmenni í Rúanda. Ég bauð hér upp á frítt kaffi í þrjá daga í byrjun apríl til að minnast þess að þá voru tuttugu ár liðin frá hinum hræðilegu þjóðarmorðum í Rúanda.“

Best fyrir þig – best fyrir mig

Augustin er með meistaragráðu í viðskiptum og þannig kom það til að hann fór að höndla með kaffi frá heimalandi sínu Rúanda sem og Búrúndí. „Þegar kom til uppbyggingar eftir þjóðarmorðin leituðu yfirvöld að fólki frá Rúanda sem búsett var um víða veröld og bauð því í sérstaka heimsókn til að kynna fyrir því allt það góða sem landið hefur upp á að bjóða. Ég var einn af þeim sem þáðu þetta boð og við vorum meðal annars hvött til að fjárfesta í Rúanda. Ég kom mér í samband við bændur sem rækta kaffi í fjallahéruðum Rúanda, en þar eru konur í miklum meirihluta vegna þess hversu margir karlmenn voru myrtir í þjóðarmorðunum. Þetta er hágæðakaffi, F2C (Farmer to Customer), þar sem stefnan kristallast í slagorðinu: Best fyrir þig – best fyrir mig. Viðskiptavinir mínir fá úrvalskaffi að drekka en styrkja um leið ræktun og lífsviðurværi fólksins í fjallahéruðum Rúanda. Þetta fólk handvelur sérstaklega þessar gæðabaunir, enda er F2C-kaffið margverðlaunað. Sanngirni í viðskiptum er líka stefnan hjá F2C og því er passað upp á að bændur sem framleiða baunirnar séu sáttir við sinn hlut.“

Íslenskur pennavinur

Augustin segist fyrst hafa heyrt af Íslandi þegar hann sem ungur skólapiltur hitti Íslendinginn Bergsvein Birgisson, nú rithöfund og höfund bókarinnar Svar við bréfi Helgu. „Bergsveinn kom til Búrúndí þegar hann var á menntaskólaaldri og með okkur tókst góð vinátta. Við héldum alltaf sambandi í gegnum bréfaskriftir, vorum það sem kallað er pennavinir, og hann kenndi mér margt um íslenska menningu. Hann er að sjálfsögðu ástæða þess að ég kom hingað í upphafi. Hann hefur verið mér góður vinur og hann á þetta kaffihús með mér,“ segir Augustin sem er afar áhugasamur um íslenska tungu og hefur lært að tala hana og skilja, enda er hann mikill tungumálamaður og talar fimm tungumál. Augustin segir Ísland sannarlega vera land töfranna því hér kynntist hann unnustu sinni, Madeleine Scherrer, sem býr í Sviss. Hún er í stuttri heimsókn hjá Augustin um þessar mundir og hjálpar til við afgreiðsluna á Kigali. Hún talar fína íslensku rétt eins og unnustinn, enda hefur hún komið margoft til Íslands, m.a. til að vinna á bóndabænum Vatnsnesi í Húnaþingi hjá Kristbjörgu Austfjörð og Jakobi Hermannssyni. „Ég ætla að fara með Madeleine til Rúanda núna í maí, það verður í fyrsta skipti sem hún kemur til Afríku og verður spennandi fyrir okkur bæði. Ég hlakka til að hitta ættingja mína.“

Madeleine Scherrer og Augustin.
Madeleine Scherrer og Augustin. Þórður Arnar Þórðarson
Kigali-kaffihúsið
Kigali-kaffihúsið mbl.is/Þórður
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka