Fundað fram á nótt

Frá samningafundi í kjaradeilu starfsmanna Isavia hjá ríkissáttasemjara.
Frá samningafundi í kjaradeilu starfsmanna Isavia hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Samninganefndir flugmálastarfsmanna hjá Isavia og Samtaka atvinnulífsins funda enn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Að sögn Kristjáns Jóhannssonar, formanns og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, verður líklegast fundað fram á nótt.

„Ég á ekki von á því að við séum að fara héðan næsta klukkutímann,“ segir hann í samtali við mbl.is. Gangurinn í viðræðunum er ágætur og vinna deiluaðilar enn að því að finna viðunandi lausn.

Rúmur sólarhringur er nú til stefnu áður en allsherjarverkfall hefst á flugvöllum landsins, hafi samningar ekki nást.

Flugmálastarfsmenn hjá Isavia hafa nú lagt niður störf þrisvar sinnum tímabundið í nokkrar klukkustundir en miðvikudaginn 30. apríl hefst allsherjarverkfall sem þýðir að ekkert verður flogið hvorki til og frá landinu né innanlands.

Samtök atvinnulífsins áætla að gjaldeyristap þjóðarbúsins vegna boðaðs verkfalls muni nema milljarði króna fyrir hvern dag sem flug liggur niðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert