Maraþonfundur með verkfall yfirvofandi

Frá samningafundi í kjaradeilu starfsmanna Isavia hjá ríkissáttasemjara.
Frá samningafundi í kjaradeilu starfsmanna Isavia hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Samninganefndir flugmálastarfsmanna hjá Isavia og Samtaka atvinnulífsins sitja enn á samningafundi sem staðið hefur í allan dag. Rúmur sólarhringur er nú til stefnu áður en allsherjarverkfall hefst á flugvöllum landsins, náist ekki samningar.

Fundurinn hjá ríkissáttasemjara hófst klukkan 10 í morgun og stendur enn. Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) segir að mikil vinna fari nú fram við að reyna að berja saman samninga. Aðspurður sagðist hann þó lítið geta gefið upp um hvernig málum miðaði.

„Það er enginn búinn að skella hurðum í dag, þannig að þetta lítur allt eðlilega út enn sem komið er. Á meðan við erum hér þá er allavega eitthvað að gerast og það er verið að vinna alveg á fullu.“ Hann segist allt eins geta verið að fundað verði fram á kvöld. „Við verðum hér eins lengi og þörf er á.“

Flugmálastarfsmenn hjá Isavia hafa nú lagt niður störf þrisvar sinnum tímabundið í nokkrar klukkustundir en miðvikudaginn 30. apríl hefst allsherjarverkfall sem þýðir að ekkert verður flogið hvorki til og frá landinu né innanlands.

Samtök atvinnulífsins áætla að gjaldeyristap þjóðarbúsins vegna boðaðs verkfalls muni nema milljarði króna fyrir hvern dag sem flug liggur niðri.

Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.
Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins. Mynd/FFR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert