Vilja banna reykingar í Kópavogi

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

Ákvæði um reykingabann á opnum svæðum í Kópavogi er í nýrri lögreglusamþykkt sem nú er til umræðu í bæjarstjórn Kópavogs. Fyrri umræða fór fram á föstudag og sú seinni fer fram þann 8. maí næstkomandi.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, stendur fyrir ákvæðinu og telur það vera mikið réttlætismál fyrir reyklausa. „Með þessu væri einfaldlega lögð áhersla á að reykingar séu bannaðar í Kópavogi. Ef þú stendur í strætóskýli og einhver þér við hlið kveikir sér í, væri hægt að benda viðkomandi á að bannað sé að reykja og hann gæti þannig drepið í sígarettunni,“ segir Ómar og telur að ákvæðið myndi hvetja reykingafólk til þess að taka tillit til reyklausra.

Vopn í höndum reyklausra

Aðspurður hvernig eigi að framfylgja slíku banni segir hann ekki standa til að efla lögreglu heldur ætti ákvæðið fyrst og fremst að vera vopn í höndum reyklausra. „Af hverju þarftu að sætta þig við að ganga í gegnum reykjarmökk á leið inn á bæjarskrifstofurnar. Í dag getur þú ekkert sagt en með þessu væri hægt að benda mönnum á að þú eigir rétt á að anda að þér fersku lofti,“ segir hann.

„Það er bannað að hafa þvaglát úti en einhverjir gera það. Það er bannað að keyra hratt en einhverjir gera það. Það verður alltaf þannig en við erum samt sem áður með umgengnisreglur í þjóðfélaginu og þetta snýst um að setja almenna skynsemi í lögreglusamþykktina.“

Óvíst er hvort samþykktin verði samþykkt í núverandi mynd eða hvort ákvæðið verði fellt út en Ómar þorir ekki að segja til um hvort einhugur sé í bæjarstjórn um bannið. „Ég held að það gætu verið of margir sem reykja í bæjarstjórn til þess að þetta fari í gegn,“ sagði hann glettinn.

Ómar Stefánsson.
Ómar Stefánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert