Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, telur ólíklegt á þessari stundu að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði afgreidd á þessu þingi.
„Utanríkismálanefnd var að koma saman eftir páskafrí og við erum að funda um önnur mál eins og stendur en þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er næst á dagskrá. Eins og staðan er í dag tel ég ólíklegt að málið klárist fyrir þinglok 16. maí,“ segir Birgir en segir það þó enn óljóst hvort þingið muni funda strax eftir sveitarstjórnarkosningar.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir engin áform vera um sumarþing enn sem komið er. „Ég hef skipulagt allt starf í samræmi við að þingið ljúki störfum 16. maí,“ segir Einar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.